Reynslusveitarfélög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 21:11:55 (7322)


[21:11]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þar sem fulltrúi Kvennalistans í félmn. er ekki viðstödd og hefur skrifað undir þetta nál. með fyrirvara þá ætla ég að gera lítils háttar grein fyrir þeim fyrirvara ásamt mínum eigin hugleiðingum um það mál í framhaldi af því.
    Það frv. sem hér er verið að ræða í 2. umr. um reynslusveitarfélög er afleiðing af till. til þál. sem samþykkt var á sl. vori um heimild til að hefja undirbúning á stofnun reynslusveitarfélaga. Samkvæmt því sem þar sagði fyrir um í níu liðum með þeirri tillögu sem samþykkt var samhljóða á síðasta þingi þá hefur verið sett upp ákveðin tillaga að því hvernig unnið yrði að þessu máli. Í þessum liðum segir í fyrsta lagi að það verði lögð fram þáltill. til samþykktar á vorþingi 1993 þess efnis að stofnað verði til allt að fimm reynslusveitarfélaga. Sú tillaga var samþykkt. Hér erum við aftur á móti að ræða um frv. til laga sem gerir ráð fyrir tólf reynslusveitarfélögum.
    Í öðru lagi var gert ráð fyrir að félmrh. skipi fjögurra manna verkefnisstjórn og það hefur gengið eftir svipað og segir í þessari tillögu. Það hefur orðið nokkur breyting á þriðja lið þar sem ekki er farið nákvæmlega eftir því að það sé ekki sett annað skilyrði en að þau sveitarfélög sem taka þátt hafa a.m.k. 1.000 íbúa. Það hefur verið farið nokkuð frjálslega með það því það hefur verið lagt til að það séu aðeins þau sveitarfélög sem eru að sameinast og síðan ákveðinn fjöldi kaupstaða af ákveðnum mismunandi stærðum.
    Síðan er sagt í sjötta lið að eftir að verkefnisstjórn sé búin að fjalla um umsóknir og hugmyndir um verkefni o.s.frv., með leyfi forseta:
    ,,Unnið verði að gerð samnings um verkefni, tekjustofna, undanþáguákvæði og fleira milli reynslusveitarfélaga annars vegar og félmrn. hins vegar að höfðu samráði við hlutaðeigandi fagráðuneyti. Samningsdrög liggi fyrir eigi síðar en 1. febr. 1994. Í þeim þarf

að koma fram hvernig skuli staðið að tilraunaverkefninu í heild sinni, þ.e. hvaða tiltekin verkefni verði færð frá ríki til sveitarfélags, frá hvaða laga- og reglugerðarskyldu sveitarfélagið skal vera undanþegið og hvernig framkvæmdinni skuli nákvæmlega hagað.``
    Síðan kemur sjöundi liður: ,,Lög um reynslusveitarfélög verða lögð fyrir Alþingi til samþykktar á vorþingi 1994.``
    Þar sem ég sat nokkra fundi í félmn. þegar verið var að ræða um þetta frv. og umsagnaraðilar komu þangað þá kom í ljós að ekki hefur verið farið eftir þessum ákvæðum sem voru í þáltill., þ.e. það er ekki búið að gera neinn samning um verkefni, tekjustofna, undanþáguákvæði og fleira, heldur er komið núna að sjöunda lið, það er búið að leggja fram frv. til laga um reynslusveitarfélög. Það veit því enginn enn þá hvernig verður staðið að samningum við þessi sveitarfélög og hvaða verkefni nákvæmlega það verða sem þau taka að sér. Það er að vísu í þessum greinum tiltekin ákveðin ráðuneyti, félmrn., heilbr.- og trmrn. og umhvrn. sem hafi heimildir til að víkja frá ákvæðum laga. Það er mjög rúmt þetta ákvæði og ég tel það ekki alveg vera í samræmi við það sem hafði verið gert ráð fyrir í þáltill. sem ég, eins og margir aðrir þingmenn, stóð heils hugar að því að samþykkja og taldi vera til bóta. Ég tel hins vegar að hér hefði átt að liggja nákvæmar fyrir hvaða verkefni og hvaða sveitarfélög og eitthvað um samninga við sveitarfélögin um tiltekin verkefni og fjármuni til þeirra verkefna.
    Sveitarfélögin hafa sótt mjög eftir því og það eru miklu fleiri sveitarfélög sem sækja um þetta heldur en gert hafði verið ráð fyrir og þess vegna líklega er það að þeim er fjölgað úr fimm í tólf. Látum það vera en ég verð þó að segja að ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig á að bera saman reynsluna af þessu þar sem ég taldi að þáltill. gerði ráð fyrir því að t.d. væru einhver fimm sveitarfélög fengin til að taka að sér ákveðin verkefni. Þessi sveitarfélög væru misjöfn að stærð og það kæmi þá út reynsla á það hvernig þau gætu verið í stakk búin til þess að ráða við þetta tiltekna verkefni. Nú virðist vera að þessi tólf sveitarfélög eigi að taka að sér mismunandi verkefni og þar af leiðandi er ekki gott að bera það saman eftir á hvernig reynslan kemur út. Ekki miðað við stærð. Það getur verið að það gangi vel hjá einu en það er ekki til sambærileg reynsla hjá öðru sveitarfélagi um það hvernig verkefnið hefur komið út af það er aðeins eitt sveitarfélag sem tekur eitthvert ákveðið verkefni. Þetta finnst mér ekki liggja nógu ljóst fyrir í frv.
    Ég hygg að þetta séu þeir aðalfyrirvarar sem fulltrúi Kvennalistans í nefndinni, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, gerði með því að skrifa undir nál. með fyrirvara. Sveitarfélögin, eins og ég sagði, leggja mikla áherslu á að þessi tilraun sé gerð og það er þar af leiðandi ekki hægt í raun og veru að leggjast eindregið gegn henni en því miður verð ég að lýsa því að mér finnst ekki vera búið að undirbúa þetta mál nægilega vel.
    Það hafa að vísu komið inn brtt. sem eru heldur til bóta, þ.e. að árlega skuli lagðar fram á Alþingi skýrslur verkefnisstjórnar um framkvæmd þessa verkefnis og fyrsta skýrslan verði lögð fram eftir eitt ár, vorið 1995. Einnig að það sé óheimilt að víkja frá ákvæðum laga er varða skilyrði um faglega ábyrgð í stjórnun heilbrigðisstofnana.
    Það er einnig athyglivert að það skuli ekkert vera í þessu frv. um heimildir til samgrh. og hefur því verið svarað með því að það væri innan nýrra vegalaga sem nýlega hafa verið samþykkt á þinginu. Í þeim lögum er að vísu heimild til vegamálastjóra til þess að fela sveitarfélögunum ákveðin verkefni. En til þess að þau geti tekið að sér ákveðin verkefni þarf auðvitað fjárframlag og það er þá enn þá algjörlega óljós stærð hvaða fjármunir eiga að fara til þess ef sveitarfélögin taka að sér einhver vegaverkefni samkvæmt nýjum vegalögum og það tilheyrir þá ekki beinlínis þessu frv. til laga um reynslusveitarfélög en ég veit að mörg sveitarfélög úti á landi sérstaklega eða í dreifbýlinu hafa mikinn áhuga fyrir því að taka að sér einhverjar framkvæmdir í vegamálum.
    Frá nokkrum sveitarfélögum hef ég heyrt, sérstaklega þeim sem eru að sameinast eða vinna sterklega að sameiningu, að þau hafi fengið jafnvel loforð frá hæstv. félmrh. um að þau fengju einhverja fjármuni til framkvæmda í vegamálum.
    Það væri rétt að spyrja hæstv. ráðherra sem er hér viðstaddur umræðuna hvort eitthvað hafi verið gert í því hvar sé að finna þá fjármuni sem til þeirra vegaframkvæmda eiga

að vera. Ég minnist þess á fundi sem er reyndar óskyldur þessari nefnd, öðrum fundi, þá var einmitt spurt um það af hálfu sveitarfélaga á Vestfjörðum sem eru að sameinast hvort það væri á döfinni að breyta vegáætlun til þess að verða við því að þau gætu fengið auknar framkvæmdir í vegamálum. Það var sem sagt algjörlega óljóst hvernig það átti að gerast og ég hafði sem samgöngunefndarmanneskja ekki heyrt neitt um það að það væri verið að ræða slíkt. Auðvitað á að taka vegáætlun til endurskoðunar, það er reglulegt endurskoðunartímabil vegáætlunar á næsta Alþingi, en það liggur ekkert fyrir á þessari stundu eftir því sem ég best veit að aukin framlög séu til framkvæmda í vegamálum í reynslusveitarfélögum eða yfirleitt í öðrum sveitarfélögum.
    Það var einnig áhugi á því að taka að sér verkefni í ferðamálum og það er heldur ekki hér og það hefði auðvitað líka þá átt að vera innan samgrn. en samgrn. er sem sagt ekki með neinar heimildir í þessu frv.
    Að öðru leyti held ég að ég hafi komið á framfæri þeim athugasemdum og fyrirvara sem ég hef um þetta. Ég tel að hér séu mjög opnar heimildir þar sem ekkert er búið að semja eða setja á blað um hvaða verkefni hér er að ræða. Ég tel að það sé mjög vafasamt að hafa svo opnar heimildir frá lögum og hef allan fyrirvara á um það hvernig það muni reynast. En eins og ég sagði í upphafi, ég tel að samt sem áður sé það tilraunarinnar virði og það verði þá fylgst með því árlega hvernig sú framkvæmd gengur þegar búið er að koma á samningum við sveitarfélögin.