Reynslusveitarfélög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 21:44:10 (7325)


[21:44]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. félmrh. vék í ræðu sinni að samgöngumálum og sagði eitthvað á þá leið að við næstu endurskoðun vegáætlunar mundu sameiningarmálin koma inn sem áhrifavaldur. Ég vil í þessu sambandi aðeins benda á það að sá hefur verið háttur þegar vegáætlun hefur verið endurskoðuð að þingmenn kjördæmanna hafa gegnt þar veigamiklu hlutverki og haft það hlutverk að raða niður verkefnum, ég má segja að sætta menn við þá áætlun sem gerð er og tala fyrir henni heima í sínum kjördæmum. Þannig hefur það verið þannig að ef þessir þættir eiga að koma inn í vegáætlun við endurskoðun hennar á næsta vori þá vil ég minna á þennan þátt þingmannanna í þessu máli, að þeir verði ekki sniðgengnir í undirbúningi þeirra mála. Það er nauðsynlegt til þess að halda þeirri samstöðu sem verið hefur í vegamálum um niðurröðun framkvæmda og hefur verið mjög þýðingarmikil því að þessi málaflokkur er viðkvæmur og vandmeðfarinn.