Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 22:06:05 (7331)


[22:06]
     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um húsaleigubætur frá meiri hluta félmn. á þskj. 1191.
    Félmn. hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund til viðræðna fulltrúa frá félmrn., Sigurð Helga Guðjónsson frá Húseigendafélaginu, aðstoðarfélagsmálastjórann í Hafnarfirði, bæjarstjórann á Akranesi, bæjarstjórann í Hveragerði, fulltrúa frá Húsnæðisstofnun ríkisins, framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, fulltrúa frá Leigjendasamtökunum, fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands, fulltrúa frá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, frá Vinnuveitendasambandi Íslands og frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Þá bárust nefndinni einnig umsagnir um frumvarpið frá bæjarstjórnum Stykkishólms, Borgarness, Akraness, Njarðvíkur, á Selfossi og Akureyri, borgarstjórn Reykjavíkur, félagsmálastjóranum á Seltjarnarnesi, Vinnuveitendasambandi Íslands, Búseta, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Leigjendasamtökunum, Húseigendafélaginu, Alþýðusambandi Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nokkrum tugum aðila var sent frv. til umsagnar en ekki skiluðu allir umsögn. Eftir umfjöllun félmn. mælir meiri hlutinn með samþykkt frv. með eftirfarandi breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali:
    Að óbreyttu gerir frv. ekki ráð fyrir að námsfólk, sem stundar nám fjarri heimabyggð sinni, eigi rétt til húsaleigubóta þar sem gert er að skilyrði að rétthafi eigi lögheimili þar sem hann býr. Meðal annars með tilliti til þess að gildandi lög um lögheimili, nr. 21/1990, veita námsmönnum undanþágu frá meginreglu þeirra laga um að menn eigi lögheimili þar sem þeir hafa fasta búsetu er lögð til breyting á skilyrðum 5. gr. frv. um rétt til húsaleigubóta. Þannig verði gerð sérstök undanþága frá skilyrðum 1. mgr. um lögheimilisskráningu í hinni leigðu íbúð þegar um námsmann er að ræða sem á skráð aðsetur utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst. Ber þá námsmanni að sækja um bætur til þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili en skilyrði er að það sveitarfélag hafi tekið ákvörðun um greiðslu húsaleigubóta, sbr. 2. mgr. 2. gr. frv.
    5. gr. frv. hljóðar svo:
    ,,Þeir leigjendur eiga rétt á húsaleigubótum sem leigja íbúðarhúsnæði til búsetu og eiga þar lögheimili, enda hafi viðkomandi sveitarfélag tekið ákvörðun um slíkar bætur, sbr. 2. gr.
    Það er skilyrði húsaleigubóta að húsaleigusamningur um viðkomandi húsnæði sé til sex mánaða eða lengri tíma og að honum hafi verið þinglýst.

    Um frekari skilyrði fyrir bótarétti og greiðslu bótanna fer samkvæmt nánari fyrirmælum þessara laga.``
    Þannig hljóðaði 5. gr. fyrir breytinguna. En á eftir 1. mgr. 5. gr. um lögheimilisákvæði kemur þá ný málsgrein, svohljóðandi:
    ,,Dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst og á þar skráð aðsetur getur viðkomandi átt rétt til húsaleigubóta þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. um lögheimili um leiguíbúð. Umsókn um bætur skal send því sveitarfélagi þar sem námsmaður á lögheimili óháð aðsetri, enda hafi sveitarfélagið tekið ákvörðun um greiðslu húsaleigubóta.``
    Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að það má segja að grunnur að slíkri tillögu finnist í 14. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en hún kveður á um þann rétt sem fólk á á aðstoð þegar það dvelur utan heimilis sveitar sinnar.
    Þá er einnig lagt til að 3. mgr. 6. gr. breytist þannig að bætur vegna ungmenna greiðist þar til þau ná 18 ára aldri, en að óbreyttu miðast frv. við 16 ára aldurshámark. Þykir 18 ára aldur vera raunhæfara viðmið með tilliti til framfærslusjónarmiða. Notað er hugtakið ,,ungmenni`` til samræmis við hugtakaskilgreiningar laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992.
    Ég vil jafnframt benda á að 10. gr. fjallar um tekjur og þar er fjallað um við hvaða tekjur skal miða rétt til bóta. 1. mgr. 10. gr. hljóðar svo: ,,Með tekjum í lögum þessum er átt við samanlagðar heildartekjur allra þeirra sem lögheimili eiga í viðkomandi leiguhúsnæði og eru þá tekjur barna 20 ára og eldri meðtaldar. Þó eru hér undanskildar tekjur barna sem stunda skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu.``
    Þannig að heimilistekjur miðast við fullorðna á heimilinu, foreldra eða foreldri og börn 20 ára og eldri sem ekki stunda skólanám í sex mánuði. Þarna er minnkaður munurinn á milli þeirra sem tekjur eru reiknaðar hjá og þeirra sem teljast til framfærsluviðmiðunar.
    Undir nál. þetta rita Rannveig Guðmundsdóttir, Gísli S. Einarsson, Einar K. Guðfinnsson, Eggert Haukdal, Guðjón Guðmundsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, með fyrirvara, Jón Kristjánsson, með fyrirvara, og Ingibjörg Pálmadóttir, með fyrirvara.