Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 22:19:22 (7333)


[22:19]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að gera grein fyrir fyrirvara hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem er fulltrúi Kvennalistans í félmn. og skrifaði undir nál. þetta með fyrirvara og tók einnig þátt í að leggja fram brtt. sem ég geri ráð fyrir að 1. flm. geri grein fyrir.
    Ég tel að hér sé um virkilega þarft mál að ræða og eins og ég sagði við 1. umr. málsins hefur Kvennalistinn lengi haft það á sinni stefnuskrá að taka upp greiðslu húsaleigubóta og tel ég það vera réttarbót.
    Hins vegar má taka undir þá athugasemd sem kom fram áðan að það er vissulega ágreiningur um það hjá sveitarfélögunum hvernig eigi að standa að þessum greiðslum. Það er af mörgum álitið réttara að þessar greiðslur hefðu ekki í för með sér að taka upp að nýju samkrull á verkefnum ríkis og sveitarfélaga heldur að þetta væri greitt í gegnum skattkerfið eins og vaxtabætur eru greiddar.
    Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það í sjálfu sér. Það er búið að ræða það ítarlega innan félmn. að menn hefðu heldur viljað sjá það á þann veg og hafa fyrirvara um þessar athugasemdir sveitarfélaganna. En ég tel að þetta sé svo stórt hagsmunamál fyrir þá sem þessar bætur koma til góða, þ.e. þá sem verst eru settir á íbúðamarkaðinum og með lægstar tekjur. Sem sagt þeim umbjóðendum okkar sem eiga jafnvel hvað erfiðast í samfélaginu kemur þetta til góða. Ég tel að þegar svo er þá eigum við að styðja málið þó að

við teljum að á því séu nokkrir formgallar.
    Það má kannski segja líka að þetta er tilraun og oft þegar verið er að setja fram nýjar hugmyndir og ný lög þurfa þau endurskoðunar við eftir ákveðinn tíma og þá er hugsanlega hægt að finna þeim betri farveg. En ég tel að þessi hugmynd sé virkilega þess virði að henni sé hrundið í framkvæmd og mikið hagsmunamála margra sem verst eru staddir í þjóðfélaginu og þess vegna höfum við kvennalistakonur ákveðið að styðja frv.
    Ég hafði raunar ekki gert mér grein fyrir því að fulltrúi Sjálfstfl. og Alþb. yrðu sammála um niðurstöðu í kvöld á frv. Það er dálítið sérkennilegt að upplifa það að þeir skuli vera innilega sammála um þau atriði sem snerta þetta frv. ( Gripið fram í: Það er skammt öfganna á milli.) Já, það er skammt öfganna á milli kannski hjá báðum. ( BBj: Eru sveitarfélögin öfgasamtök?) Sveitarfélögin eru hagsmunasamtök og gæta auðvitað sinna hagsmuna í þessum atriðum og þau fer e.t.v. ekki alltaf saman við hagsmuni íbúanna.