Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 23:14:45 (7355)

[23:14]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Þegar frv. til laga um húsaleigubætur kom fyrst til umræðu í mínum þingflokki þá lýsti ég strax yfir stuðningi mínum við þær hugmyndir sem uppi voru og koma m.a. fram í 1. gr. þess frv. sem hér er til umræðu en í 1. gr. frv. segir:
    ,,Markmið laganna er að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og að draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum. Stefnt er að því að ná þeim markmiðum með sameiginlegri kostnaðarþátttöku ríkis og sveitarfélaga sem nánar greinir í lögum þessum.``
    Þessi markmið tel ég að séu eðlileg og get tekið undir þau og styð þessi markmið sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar var það þegar frv. sem hér er til umræðu kom til meðferðar í þingflokki Sjálfstfl. að þá lýsti ég strax fyrirvara um það fyrirkomulag sem frv. gerir ráð fyrir. Ég vakti athygli á því og vil vekja athygli á því í þessari umræðu, virðulegi forseti, að það er afar mikilvægt að sveitarfélögin séu höfð með í ráðum við gerð slíks frv. og að Alþingi geti ekki afgreitt frá sér svo viðamikið mál eins og frv. til laga um húsaleigubætur í fullkominni andstöðu við nær öll sveitarfélögin í landinu og samtök þeirra. Þess vegna hvatti ég mjög til þess að það yrði reynt að leita leiða til þess að ná niðurstöðu, ná fram breytingum á frv. áður en það yrði lagt fram þannig að það væri nokkuð öruggt að sveitarfélögin gætu fallist í öllum aðalatriðum á framkvæmd málsins.
    Þegar frv. var síðan lagt fram með þessum fyrirvörum þá var það satt að segja von mín að það mætti takast í félmn. að ná fram breytingum á frv. sem gætu verið í takt við þær athugasemdir sem sveitarfélögin höfðu m.a. sett fram.
    En niðurstaðan er hins vegar önnur og þess vegna verð ég við þessa umræðu að lýsa yfir þeirri niðurstöðu minni að ég get ekki stutt frv. eins og það liggur fyrir til afgreiðslu.
    Ég tel eðlilegt að framkvæmd húsaleigubótakerfis sé á vegum sveitarfélaganna. Við þekkjum það að í dag er það svo að sveitarfélögin í landinu eru með einum eða öðrum hætti gegnum félagslega kerfið, hina félagslegu þjónustu og svo félagslega íbúðakerfið að veita beint eða óbeint húsaleigustyrki þannig að það er afar mikilvægt að það sé samræmi í þeirri framkvæmd og hinni nýju framkvæmd sem gert er ráð fyrir að verði á húsaleigubótakerfi sem er auðvitað að forminu til nýtt á Íslandi.
    Ég endurtek það að ég tel eðlilegt að þetta sé í höndum sveitarfélaganna og hefði talið langeðlilegast að löggjöfin væri með þeim hætti að sveitarfélögunum væru tryggðar tekjur og það lægi alveg fyrir hvað væri gert ráð fyrir að greiða til húsaleigubóta en síðan væri það á valdi sveitarfélaganna innan ramma laga að framkvæma málið.
    Meginathugasemdir mínar við þetta frv. eru þær að ég tel að það sé að nokkru horfið til fyrri tíma þegar tekið er upp það kerfi að sveitarfélögin sjái um framkvæmdina, sveitarfélögin greiði 40% og þurfi síðan að fá endurgreiðslu frá ríkinu á 60% af húsaleigubótunum. Það er alveg ljóst að með þessu fyrirkomulagi verður nauðsynlegt að setja upp mjög flókið og viðamikið eftirlitskerfi hjá sveitarfélögunum til þess að uppfylla kröfur ríkisvaldsins sem auðvitað er eðlilegt að vilji fylgjast náið með framkvæmdinni þegar farið er að greiða út stórar fjárhæðir í gegnum þetta húsaleigubótakerfi. Það er fyrirkomulag sem verið er að hverfa frá í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og ég held að allir sveitarstjórnarmenn sem ég þekki telji að það sé ekki til bóta að hverfa að nýju til þess fyrirkomulags að rugla þannig saman reitum sveitarfélaganna og ríkisins eins og hér er gert ráð fyrir.
    Þetta er meginatriðið sem ég tel að ekki sé eins og ég vildi hafa það, þetta fyrirkomulag eins og segir í 2. gr. frv. og reyndar 3. gr.
    En í 4. gr. frv. er ákvæði sem ég tel líka mjög vafasamt en þar segir:
    ,,Telji ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrirsjáanlegt að endurgreiðsla ríkis skv. 1. mgr. 3. gr. nemi hærri fjárhæð en fjárlög heimila eða kveða á um skal nefndin gera um það tillögu til félmrh. að ákvæði reglugerðar um að fjárhæð húsaleigubóta verði endurskoðuð.``
    Þetta ákvæði 4. gr. yrði afskaplega erfitt í framkvæmd. Þetta þýðir það í rauninni að ef það væri fyrirsjáanlegt um mitt ár að það fjármagn sem ætlað er til endurgreiðslu frá Jöfnunarsjóði, í þessu tilviki til sveitarfélaganna, er uppurið þá verður annaðhvort að hætta þessum endurgreiðslum eða breyta þeim eða lækka á tímabilinu til þess að endar nái saman. Við getum rétt ímyndað okkur og séð upplitið á fólkinu sem fær 15 þús. kr. í húsaleigubætur fyrstu mánuði ársins sem síðar stiglækka þegar líður á árið vegna þess að leigumarkaðurinn varð miklu stærri en fyrirhugað var og þess vegna reynist nauðsynlegt hjá Jöfnunarsjóði að lækka þessar endurgreiðslur. Þetta er fyrirkomulag sem ég tel að sé algjörlega óframkvæmanlegt og geti því miður ekki gengið.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara öllu fleiri orðum um þetta frv. Ég tel að hugmyndin á bak við frv. sé afar mikilvæg og það beri að leita allra leiða til þess að lagfæra frv. og ég hefði talið að það væri langeðlilegast að þetta yrði látið liggja í sumar og undirbúið þannig að strax í byrjun þings í haust yrði hægt að afgreiða málið í góðri sátt við sveitarfélögin í landinu sem eiga að framkvæma það enda er gert ráð fyrir því að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. jan. á næsta ári. Þannig að ég skil ekki hvers vegna er svo brýnt að afgreiða þetta frv. í fullkominni andstöðu við sveitarfélögin í landinu, lög sem ekki eiga að taka gildi fyrr en á næsta ári.
    Virðulegi forseti. Ég vil í lokin minna hæstv. félmrh. á að það er í gildi sérstakur samstarfssáttmáli á milli sveitarfélaganna og ríkisstjórnarinnar og það er afar áríðandi að í svo mikilvægu máli sem þessu sem varðar þá sem hafa lægstar tekjurnar í þjóðfélaginu að það sé ekki látið brjóta á þessum samstarfssáttmála á milli ríkisins og sveitarfélaganna þegar verið er að fjalla um svo mikilvægt mál eins og húsaleigubætur eru.