Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 23:33:37 (7364)


[23:33]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. hélt í fyrsta lagi fram að þetta frv. og ákvæði þess væru í fullkominni andstöðu við öll sveitarfélögin í landinu eins og hann orðaði það og í annan stað væri allt í lagi að fresta gildistökunni, fresta samþykkt frv. af því að frv. ætti ekki að taka gildi fyrr en um nk. áramót. Um þetta vil ég segja það að nefnd sem skilaði af sér í febrúar 1993, en í þeirri nefnd átti sæti fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga, þar var öll þessi tillaga útfærð, m.a. að þetta ætti að vera á vettvangi sveitarfélaganna og fulltrúi Sambands sveitarfélaga skrifaði undir það fyrirvaralaust. Síðan varð það að samkomulagi milli mín og forustumanna Sambands ísl. sveitarfélaga að þriggja manna nefnd með aðild Sambands ísl. sveitarfélaga skyldi útfæra þessa tillögu í frumvarpsform.
    Í annan stað er gert ráð fyrir því að sveitarstjórnin skuli ákveða fyrir 1. okt. hvort sveitarfélögin greiði húsaleigubætur næsta ár og þess vegna er brýnt að það taki gildi nú vegna þess að sveitarfélögin þurfa að ákveða það fyrir 1. okt., annars verður að seinka framkvæmdinni um heilt ár.