Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 23:35:03 (7365)


[23:35]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hæstv. félmrh. vil ég segja það í fyrsta lagi að ég tel að það sé ekkert einfaldara en að hafa bráðabirgðaákvæði um þennan ákvörðunarfrest sveitarfélaganna þannig að það þyrfti ekki að vera endilega 1. okt. í haust sem sveitarfélögin tækju ákvörðun vegna þess að lögin væru í vinnslu og hefðu ekki hlotið afgreiðslu. Það eru ekki rök með því að það þurfi að afgreiða frv. núna.
    Varðandi það að öll sveitarfélög hafi lýst andstöðu er hægt að fletta upp í þeim skjölum. Þau sveitarfélög sem hafa sent inn athugasemdir hafa öll lýst andstöðu við þetta að því er ég best veit og stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, þar sem eru fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna, hefur samhljóða óskað eftir að afgreiðslu frv. verði frestað. Og ég vakti athygli á því, hæstv. félmrh., að það er ekki skynsamlegt að ganga í þessu máli svo mikilvægt sem það er algerlega gegn vilja stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Það er ekki farsælt svo mikilvægt sem þetta mál er.