Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 23:36:28 (7366)


[23:36]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lýst því yfir að á vinnslustigi þessa máls hefur það verið unnið í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga skrifaði undir skýrslu þar sem lagt var til að framkvæmdin yrði hjá sveitarfélögunum. Og hv. þm. sagði áðan að hann teldi hæpið að hafa þetta valkvæmt gagnvart sveitarfélögunum en í öðru orðinu heldur hann því fram að það sé ekki hægt að ganga gegn vilja sveitarfélaganna í landinu. Það voru þau sem óskuðu eftir því að þetta yrði valkvæmt með þessum hætti sem hér er lagt til. En það gleymist í allri þessari umræðu að lýsa þá yfir áliti þeirra sem hafa skrifað nefndinni og mælt eindregið með samþykkt þessa frv. sem eru mörg félagasamtök í landinu, Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp, Leigjendasamtökin, Húseigendafélagið og síðan verkalýðsfélögin BSRB og ASÍ, þessi félög leggja öll áherslu á það að þetta mál nái fram að ganga. Ég held að láglaunafólk sem er á leigumarkaðnum hafi beðið nógu lengi eftir því að fá þessar réttabætur þó að við frestum því ekki enn um eitt ár.