Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 23:39:09 (7368)


[23:39]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið á hinu háa Alþingi þá eru nú mörg mál sem félmn. hefur unnið og gengið frá á þessu þingi og sum hafa verið vel unnin og önnur kannski mátt vera betur unnin. Sum mál hefur mér þótt vera fullnákvæm en samt greinilega ekki nógu nákvæm.
    Hér var minnst á fjöleignarhús áðan og mér fannst það afar nákvæmt og fullnákvæmt á köflum, en nú er þegar komið í ljós að það eru annmarkar á því því að það er komin upp mikil deila í fjöleignarhúsi í Kópavogi sem ekkert er kveðið á um í þeim lögum. Það má kannski þegar endurskoða. En það er annað mál, virðulegi forseti.
    Hér er annað og kannski alvarlegra mál á ferðinni. Það er frv. til laga um húsaleigubætur. Hér er verið að koma til móts við þá tekjulægstu í landinu, tekjulægstu leigjendur í landinu þannig að þeir fái endurgreidda að hluta til sína húsaleigu. Við höfum lagt það til að þessi greiðsla væri á svipuðum nótum og vaxtabætur eru greiddar, enda hugsaðar svipað.
    Í þessu frv. eru ýmis atriði sem eru til umhugsunar og áhyggjuefni eins og fram hefur komið hér í kvöld og þessu áhyggjuefni höfum við svo sem deilt í hv. félmn., við höfum gert það. En við teljum þetta mjög brýnt mál, fulltrúar Framsfl. Við teljum þetta mjög brýnt mál og við höfum ekki viljað tefja það. Við höfum verið með allar þær athugasemdir í nefndinni sem hafa komið hér fram. En það er rétt sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. hér áðan að þessu máli var hraðað mjög í gegnum félmn. Ég tek undir það með hv. formanni nefndarinnar. Það eru full heilindi í þeim vinnubrögðum og ég minnist varla að fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni væru með nokkrar athugasemdir við þetta frv. Það kemur mér á óvart hversu sterkar athugasemdir koma nú fram við þetta frv. og það vekur auðvitað vonir okkar sem erum með athugasemdir og erum með fyrirvara um þetta mál að það sé hægt að bæta þetta mál. Þess vegna legg ég aftur til að þetta fari inn í nefndina til endurbóta og við látum á það reyna hvort það sé ekki hægt að bæta þetta mál. Ég tek undir það sem kemur hérna í athugasemdum frá bæði Sambandi ísl. sveitarfélaga og frá ýmsum bæjarfélögum í landinu sem gera mikla fyrirvara um framkvæmd málsins. Hér hefur komið fram tillaga m.a. frá hv. 1. þm. Vesturl. um hvernig mætti taka á því máli er snerti sveitarfélögin þannig að sveitarfélögum séu tryggðar ákveðnar tekjur og síðan sjái þau um framkvæmd málsins. Ég gæti mjög vel fellt mig við þessa tillögu. Og mér finnst eftir þá umræðu sem hér hefur verið að við séum sammála um að það væri slys að láta frv. fara í gegnum þingið með þeim hætti sem það er nú.
    Varðandi 2. gr. þessa frv. sem hér hefur verið mjög til umfjöllunar um það að það er valkvætt fyrir sveitarfélög hvort þau taka upp þessar húsaleigubætur eða ekki. Ég veit að það er rétt hjá hæstv. félmrh. að það er í fullu samkomulagi við Samband ísl. sveitarfélaga. En maður spyr sig að því hvort þetta stangast ekki á við stjórnsýslulög, jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, þegar ríkið fer að greiða 60% í húsaleigubætur til þeirra sveitarfélaga sem hafa ákveðið að greiða húsaleigubætur en ekki til hinna. Mig langar að spyrja hæstv. félmrh. hvort hún hefur skoðað þennan þátt málsins. Ég tel að þetta sé málefni sem hefur ekki verið skoðað í nefndinni og ég verð að viðurkenna að meðan málið var á hraðferð í nefndinni þá var þetta mér ekki ofarlega í huga. Eftir á að hyggja sýnist mér að þetta gæti stangast á og þess vegna er ýmislegt í þessu máli sem hægt er að vinna betur og ástæða er til að vinna betur. Eins og fram hefur komið hér margsinnis þá á þetta frv. ekki að verða að lögum fyrr en í árslok 1995 og þess vegna segir ég: Við eigum að nýta tímann til að gera þetta mál þannig úr garði að það komi þeim að gagni sem þurfa á því að halda að fá húsaleigubætur, það komi ekki einungis þannig út að það verði hækkun á húsaleigu og verði engin réttarbót fyrir þá sem mest þurfa á þessum bótum að halda.