Húsaleigubætur

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 00:32:58 (7371)


[00:32]
     Frsm. meiri hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kem í ræðustól vegna orða hv. þm. um Búseta og vaxtabætur. Ég var ein þeirra sem tóku þátt í umræðum hér á göngum Alþingis fyrir jólin þegar fulltrúar Búseta sóttu mjög á að fá að fara inn í vaxtabótakerfið. Ég varaði eindregið við því og lagði herslu á að Búseti mundi aldrei komast bæði inn í vaxtabótakerfið með eignarhlutann og eiga aðild að húsaleigubótum kæmust þær á. Og það var marg, margítrekað við þá fulltrúa sem héldu sig hér og reyndu að hafa áhrif á það að Búseti fengi aðgang að vaxtabótakerfinu. Það gekk svo langt að ég varð vitni að því að þeim var bent á það

að þeir væru e.t.v. að fyrirgera rétti sínum til húsaleigubóta ef þeir sæktu á með þetta. Þeir óskuðu eindregið eftir því að fá að koma að vaxtabótakerfinu þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir þessar viðvarnir. En eftir á þegar ljóst var að í lagagrein var sett að þeir sem hlytu vaxtabætur mundu ekki geta fengið húsaleigubætur þá komu þeir og voru mjög ósáttir við það og fannst að við í efh.- og viðskn. hefðum komið aftan að þeim með því að setja einhverja fyrirvara í greinina.
    Ég er búin að eiga nokkuð miklar umræður við fulltrúa Búseta einmitt um þetta mál og það er ágætt að koma inn á það hér að e.t.v. þarf á næsta hausti --- þetta eru ákvæði sem eiga að ganga í gildi 1. jan. 1995 --- þetta eru önnur lög. Þetta eru lög sem eru í efh.- og viðskn., eins og formanni þeirrar nefndar er ljóst. En í raun og veru kemur það ákvæði ekki við því máli sem við erum með hér vegna þess að ef ákvæðið um Búseta í vaxtabótakerfinu er fellt út þá hlýtur það að koma til úrskurðar hvort þeir falla undir húsaleigubætur.