Húsaleigubætur

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 00:47:24 (7374)


[00:47]
     Jón Kristjánsson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Í þessum umræðum hafa komið fram ítrekaðar beiðnir um það m.a. frá 1. þm. Vesturl., að félmn. líti aftur á málið. Ég tel það einsýnt í ljósi þess sem hér hefur komið fram að þessari umræðu verði nú frestað og það verði boðað til fundar í félmn. um málið. Það eru komnir upp nýir agnúar m.a. með Búseta sem komu ekki fram í meðferð félmn. Það kom fram í nefndinni að búsetamenn nytu vaxtabóta og það er nauðsynlegt að ræða þau mál. Ég hef fyrir mína parta enga löngun til þess að tefja fyrir þessu máli og vil greiða fyrir því að það komi til afgreiðslu. En ég tel einsýnt að það verði að fresta þessari umræðu og nefndin freisti þess að samræma sjónarmiðin í málinu ef það er hægt. Að öðru leyti hef ég enga löngun eða tilburði til þess að þetta mál komi ekki til afgreiðslu og tel þvert á móti nauðsynlegt að það fái afgreiðslu áður en við förum heim og ljúkum þingi. Þannig að ég vildi fara fram á það að þessari umræðu yrði frestað svo félmn. gæfist tækifæri til þess að líta á þau atriði sem komið hafa fram hér í kvöld.