Húsaleigubætur

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 00:50:37 (7376)


[00:50]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (um fundarstjórn) :

    Virðulegi forseti. Þau rök sem hér hafa verið sett fram um frestun á þessu máli, að það þurfi að ganga aftur til nefndar, finnst mér ekki fullnægjandi til þess að það réttlæti að málið fari aftur til nefndar.
    Menn bera fyrir sig Búseta í því sambandi. Mér er alveg kunnugt um að Búseti hefur gert athugasemdir við hvernig hlutur þeirra í vaxtabótakerfinu er. Þar erum við að tala um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og þeir hafa farið fram á að hlutur þeirra í því kerfi verði leiðréttur. Þannig að það hefur ekki með að gera það frv. sem við erum hér að ræða. Því sé ég nú enga ástæðu til þess vegna þess að fresta málinu og vísa því aftur til nefndar. Ég sé ekki að það hafi neitt nýtt komið fram í þessari umræðu hér í kvöld sem gefi tilefni til þess. Ég vil minna á að fulltrúar Framsfl. og Kvennalistans skrifa undir nál. meiri hlutans með fyrirvara, þau hafa gert grein fyrir sinni brtt. sem þau bera hér fram. Við í stjórnarflokkunum, meiri hlutanum, sáum þá brtt. Það var ekki vilji fulltrúa stjórnarflokkanna í félmn. að fallast á þá brtt. Ég hef ekki séð að það sé neitt efni til þess að það hafi orðið nein viðhorfsbreyting í því til þess að það réttlæti að málið sé tekið aftur inn í nefndina.