Tryggingagjald

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 01:10:35 (7389)


[01:10]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs í þessu máli er sú að athygli iðnn. var fyrir nokkrum vikum vakin á sérstöku vandamáli sem snertir Kísiliðjuna við Mývatn. Við ræddum það mál í hv. iðnn. og sendum bréf þess efnis til hv. efh.- og viðskn. og málið er út af fyrir sig þekkt og ástæðulaust að rekja það ítarlega. En í grófum dráttum gengur það út á það að Kísiliðjan fór fram á að fá niðurfellt tryggingagjald sem lagt var á verksmiðjuna á árinu 1993. Kísiliðjan sneri sér til hæstv. iðnrh. 25. nóv. 1993 þar sem rök Kísiliðjunnar voru tíunduð í þessu máli.
    Af hverju vill Kísiliðjan fá fellt niður tryggingagjald? Það er vegna þess að Kísiliðjan framleiðir vöru sem er flutt til útlanda og útflutningur á ekki að borga tryggingagjald. Hins vegar háttar þannig til með Kísiliðjuna að þegar afurðir verksmiðjunnar eru komnar á hafnarbakkann á Húsavík þá skiptir varan um nafn og fyrirtækið Celite Ísland hf. tekur við vörunni og eignast hana. Hér er um að ræða verslunarfyrirtæki, millilið, útflutningsaðila, en ekki framleiðslufyrirtæki og á þeim grundvelli gerðist það að fjmrn. hafnaði beiðninni. Í fyrsta lagi var það skattstjórinn í Norðurlandsumdæmi eystra sem hafnaði beiðninni með þessum orðum: ,,Þar eð öll framleiðsla yðar er seld innan lands verður ekki séð að starfsemi yðar falli undir 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 248/1993, um endurgreiðslu tryggingagjalds, og er umsókn yðar um endurgreiðslu fyrir júní 1993 því hafnað.`` Þ.e., skattstjórinn í Norðurlandsumdæmi eystra lítur þannig á að varan hafi verið seld innan lands með því að Celite hf. hefur yfirtekið hana á hafnarbakkanum á Húsavík af Kísiliðjunni við Mývatn. Bréf um þetta mál kom frá skattstjóranum í Norðurlandsumdæmi eystra 14. júlí 1993.
    Kísiliðjan vildi ekki una þessari niðurstöðu og skrifaði ríkisskattstjóra bréf þar sem m.a. er vitnað til reglugerðarinnar. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Endurgreiða skal aðilum samkvæmt 2. tölul. 2. gr. þann hluta greidds tryggingagjalds vegna sama tímabils sem tengist þeim hluta á framleiðslu á framangreindu tímabili sem fluttur er úr landi eða ætlaður til útflutnings.`` Og það eru orðin í reglugerðinni ,,ætlaður til útflutnings`` sem Kísiliðjan hengir hatt sinn á af eðlilegum ástæðum, að hér sé um að ræða útflutningsafurð sem Kísiliðjan framleiðir og þó hún skipti um eiganda af hagkvæmnisástæðum á hafnarbakkanum á Húsavík þá sé hér um útflutningsstarfsemi að ræða sem eigi að fá endurgreitt tryggingagjald.
    Ríkisskattstjóri lét sér hins vegar ekki segjast og staðfesti úrskurð skattstjóra og segir að það séu engar heimildir í lögum eða reglugerð til að endurgreiða til kæranda umrætt tryggingagjald. Ríkisskattstjóri lítur með öðrum orðum þannig á að það þurfi sérstaka heimild í reglugerðinni til þess að þetta verði endurgreitt og ég bendi á að hér er í báðum tilvikum í niðurstöðum skattstjórans lögð áhersla á það að hér sé um að ræða reglugerð. Það er reglugerðin sem verið er að vitna í, sem sett er hins vegar á grundvelli laganna.
    Kísiliðjan vildi ekki una þessu og leitaði þá álits lögmanna á því hver réttur Kísiliðjunnar væri til endurgreiðslu á tryggingagjaldi samkvæmt bráðabirgðalögum nr. 86/1993, um efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga. Það eru Lögmenn Skólavörðustíg 12 í Reykjavík, Baldur Guðlaugsson, sem er heimsfrægur maður, a.m.k. í Sjálfstfl., og fleiri góðir menn sem standa að þessu skjali og það er mjög fróðleg greinargerð. Þeir rekja málið samviskusamlega eins og þeirra er von og vísa á mörgum síðum þar sem farið er yfir lagaforsendur málsins, reglugerðartilvitnanir raktar alveg í smáatriðum og í þaula liggur mér við að segja, og farið yfir málið eins og það lítur út frá þessari lögmannsstofu séð. Og hvað segir hún? Hún segir svo að lokum í sínu skjali, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Bráðabirgðalögum nr. 86/1993 var ætlað að styrkja útflutningsgreinar atvinnulífsins með því að bæta afkomu þeirra sem nemur greiddu tryggingagjaldi á umræddu tímabili. Sé skýring skattyfirvalda á lögunum lögð til grundvallar eru lögin þrengd verulega frá því sem virðist hafa verið tilgangur löggjafans. Samkvæmt þessu verður að telja að það fái betur samrýmst tilgangi og ákvæðum laganna að þeir aðilar sem framleiða vöru sem ætluð er til útflutnings eigi rétt til endurgreiðslu á tryggingagjaldi umrætt tímabil óháð því hvort þeir koma vörunni sjálfir á markað erlendis eða fela öðrum sölumeðferðina, enda beri að líta svo á að þeir stundi útflutning í skilningi laganna. Niðurstaðan er því sú, andstætt skilningi skattyfirvalda, að öll rök séu til þess að Kísiliðjan hf. eigi rétt til endurgreiðslu á tryggingagjaldi samkvæmt bráðabirgðalögum nr. 86/1993, um efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga, sbr. samræmd lög nr. 112/1993.``
    Þetta skjal fer sem sagt sína leið og fer m.a. til viðsk.- og iðnrn., en það er eitthvert ráðuneyti þarna í Arnarhvoli sem heitir iðn.- og viðskrn., stendur meira að segja á hausnum, en mér er ekki kunnugt um að nein lög í landinu hafi ákveðið að það séu til iðn.- og viðskrn. ( VE: Sparnaður í bréfsefni.) En það er kannski sparnaður í bréfsefni, pappírslaus viðskipti milli þessara ráðuneyta, eins og hv. þm. þekkir. Og hver er þá niðurstaðan af hálfu iðnrn.? Iðnrn. virðist vera sammála Kísiliðjunni í þessu máli, en fjmrn. vísar þessu hins vegar á bug og segir: Það er ekki hægt fyrir okkur að endurgreiða þetta. Svo fór um sjóferð þá og Kísiliðjan hefur ekki fengið tryggingagjaldið endurgreitt enn þá.
    Út af fyrir sig tel ég að að hér sé kannski ekki um að ræða stærsta mál Alþingis fyrr og síðar, en það er engu að síður dálítið umhugsunarefni að fyrirtæki af þessu tagi, sem er engin vorkunn umfram önnur fyrirtæki á Íslandi, skuli lenda í svona hremmingum. Þá segir náttúrlega hæstv. fjmrh.: Já, en þetta fyrirtæki heyrir bara ekki undir venjuleg lög vegna þess að það er meira og minna undir sérlögum. Og segir sem svo: Ef þeir vilja fá þetta svona þá er best að þeir fari bara undir almenn íslensk lög og það vilja þeir sennilega ekki af því að þeir njóta margvíslegra forréttinda samkvæmt þessum sérlögum að öðru leyti.
    Engu að síður er ljóst að hér er um almennt sanngirnismál að ræða og ég taldi að mér væri skylt sem formanni iðnn. að taka málið hér upp og vekja sérstaka athygli á því í þessari umræðu. Mér er ljóst að fjmrh. þarf sérstakar heimildir til að endurgreiða þetta tryggingagjald frá árinu 1993. Það gæti birst í lögum eða jafnvel í heimildagrein fjárlaga. En hvernig sem það liggur þá er málið þannig að verði það ekki leyst með samkomulagi af einhverju tagi þá eru yfirvofandi, sýnist mér á öllu miðað við allan málatilbúnað, málaferli. Ég er ekki að segja að menn eigi að óttast að ríkinu sé stefnt af og til, ef menn telja sig vera með sterka stöðu í málum. Ég held þó að þegar allt kemur til alls þá væri skynsamlegt að fjmrn. liti aðeins betur á þetta og þess vegna vildi ég taka þetta mál hér upp og hefði gjarnan viljað heyra skoðun hæstv. fjmrh. á því.