Tryggingagjald

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 01:31:28 (7391)


[01:31]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 1. þm. Austurl. hefur kannski tekið af mér ómakið að mestu leyti og svarað þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá hv. 9. þm. Reykv., formanni hv. iðnn.
    Það er rétt sem hefur komið hér fram að um Kísiliðjuna gilda sérlög, sem að áliti fyrirtækisins og sjálfsagt flestra sem þau skoða, eru hagstæðari fyrir fyrirtækið heldur almenn íslensk skattalög. Þetta þarf að hafa í huga, en var þó ekki afgerandi varðandi þetta tiltekna tilvik sem nefnt var til sögunnar. Í reynd erum við þó ekki að tala hér um frv. sem tekur á þessu sérstaka máli, því niðurfelling tryggingagjaldsins á miðju sl. ári var tímabundin ráðstöfun og gilti einungis til síðustu áramóta. Celite Ísland hf. á Húsavík er fyrirtæki sem er skráður útflutningsaðili á framleiðslunni sem um ræðir í þessu tilviki. Það fyrirtæki gat samkvæmt lögunum sótt um niðurfellingu á tryggingagjaldi þennan tiltekna tíma. Ég hef reyndar ekki hugmynd um hvort fyrirtækið gerði það en í starfi hjá þessu fyrirtæki eru auðvitað margfalt færri menn og launagreiðslurnar þess vegna miklu minni heldur en í Kísiliðjunni og þar af leiðandi er hagstæðara, þegar litið er á bæði fyrirtækin saman, ef Kísiliðjan hefði notið endurgreiðsluréttarins.
    Lögin sem um getur nefna, ef ég man rétt, fiskinn og síðan almennt útflutningsstarfsemina. Niðurstaða lögfræðinga fjmrn. er á þá lund að það sé ekki nægilegt að breyta reglugerð, það þurfi að breyta lögunum og þá stöndum við frammi fyrir því hvort eðlilegt sé að breyta eða flytja lagafrv. sem taki til þessa einstaka fyrirtækis, sem í raun nýtur sérstakra skattfríðinda.
    Þegar reynt er að svara þeirri fyrirspurn þarf að hafa í huga að fjöldi fyrirtækja sem þjónusta útflutningsstarfsemina fóru fram á það að fá niðurfellingu tryggingagjaldsins. Ég nefni til sögunnar ýmis tölvufyrirtæki sem selja útflutningsfyrirtækjunum þjónustu sína. Fulltrúar þeirra komu á fund í fjmrn. og fóru fram á að þetta væri útflutningsstarfsemi, sem auðvitað má til sanns vegar færa. Lögin voru þó talin vera þannig að þau tækju ekki til þessara þjónustufyrirtækja. Þess vegna hygg ég að það sé ekki ráð að flytja sérstakt frv. sem nær til þessa fyrirtækis jafnvel þó færa megi ýmis sanngirnisrök fyrir því að fyrirtækið hefði átt að njóta niðurfellingar tryggingagjaldsins í þennan takmarkaða tíma.
    Ég minni einnig á að ef niðurstaða þeirra lögfræðinga sem fyrirtækið leitaði til er rétt þá getur fyrirtækið leitað til yfirskattanefndar og til dómstólanna, þó að ég sé sammála því að ríkið geri kannski stundum fullmikið af því að beina öðrum aðilum þá leið þá hefur þetta fyrirtæki eins og önnur fyrirtæki þá leið til að fara.
    Ég er sammála hv. 1. þm. Austurl. að best væri að íslensk skattalög væru þannig útbúin að ekki þyrfti að grípa til sérlaga þegar um erlenda fjárfestingu er að ræða, erlendan atvinnurekstur hér á landi, sem í raun er íslenskur atvinnurekstur og lýtur íslenskum lögum en í eigu útlendinga. Ég er sammála honum um að það þurfi að haga skattamálum fyrirtækja með þeim hætti að fyrirtæki sem starfa samkvæmt íslenskum lögum séu samkeppnisfær miðað við önnur fyrirtæki og fyrirtæki sem starfa annars staðar í sömu grein.
    Ég vil staðfesta það hér að hafa fengið bréf frá hv. 1. þm. Austurl., sem hann sendi sem formaður nefndarinnar, vegna þeirra breytinga sem urðu á lögunum um tryggingagjald fyrir síðustu jól. Ég vil taka það fram að í mínum huga var það mjög skýrt allan tímann hvernig sú breyting átti að verða, en það var nákvæmlega eins og niðurstaðan varð. Það er hins vegar rétt að það komi fram að ekki gafst tóm til þess á síðustu augnablikum þinghaldsins fyrir jól að kynna þetta mál vel fyrir þeim sem í hlut áttu og ég vil taka það kannski ekki síst á mig sem ráðherra í þessum efnum, en nefni það til sögunnar að fjmrn. leit á skattalagabreytingarnar fyrir jól 1992, og reyndar 1993 einnig, dálítið í heilu lagi, sérstaklega þegar var verið að ræða um ferðamannaþjónustunna. Þegar það gerðist að hætt var við að leggja virðisaukaskatt á vissan hluta ferðaþjónustunnar var ljóst að ríkið yrði fyrir talsverðu tekjutapi og þar sem verið var að lækka virðisaukaskatt á matvæli þótti mér eðlilegt að einungis yrði lækkað tryggingagjald af þeim hluta ferðaþjónustunnar þar sem virðisaukaskatturinn kom á og það var gistingin. Þess vegna var það með mínu ráði að hætt var við að lækka tryggingagjaldið á veitingastarfseminni, sem er auðvitað miklu víðtækari starfsemi og nær til miklu fleiri aðila heldur en gistingin.
    Málið var síðan tekið upp aftur og þá stóðum við í þeim sporum að þurfa að fjármagna það tap sem hlytist fyrir ríkissjóð af því að lækka þennan skatt. Í því sambandi vil ég rifja það upp að þegar upphaflega lagafrv. um tryggingagjald var flutt á Alþingi um áramótin 1990--1991 var gert ráð fyrir því að þessi tvö þrep í tryggingagjaldinu mundu hverfa og öll fyrirtæki, sama í hvaða grein þau störfuðu, borguðu sama tryggingagjald. Það er rétt að það komi fram að það fylgdu engin réttindi til handa einstaklingum í atvinnurekstri í þeirri löggjöf sem þá var flutt, en sú löggjöf var mjög til bóta að mínu áliti. Lagafrv. var reyndar breytt og út úr því var tekið það ákvæði sem lagði það til að munurinn á tryggingagjaldsþrepunum hyrfi.
    Þess vegna stöndum við nú frammi fyrir því, þegar rætt er um fjármögnunina í þessu sambandi, að þurfa að finna u.þ.b. eitt hundrað milljónir til þess að brúa það bil sem verður ef lækkun á sér stað í þeim greinum sem tilnefndar hafa verið, annars vegar veitingastarfsemin og hins vegar hugbúnaðarfyrirtækin. Frá mínum sjónarhóli er það forsenda þess að geta breytt tryggingagjaldinu á þessum greinum að tekjur komi frá fyrirtækjum og þá er eðlilegast að það sé greitt af þeim fyrirtækjum sem njóta þess að vera í lægra skattþrepinu. Ég minni á í þessu sambandi að núv. ríkisstjórn hefur lækkað heilmikið skatt á fyrirtæki, þar á meðal er aðstöðugjaldið horfið, skattlagningin hefur færst yfir á einstaklinga. Það verður með einhverjum hætti að ná tekjum inn á móti því tekjutapi sem ríkissjóður verður fyrir af þessum völdum og að mínu viti er hyggilegast að gera það á þann hátt sem hér er stungið upp á. Að öðrum kosti þarf að finna aðrar tekjuleiðir og þá væntanlega að taka tekjurnar af einstaklingum eða safna upp auknum halla á ríkissjóði, sem auðvitað er ekki til fyrirmyndar.
    Ég ætla ekki að ræða hér um þátt Egils Jónssonar að öðru leyti en því að afstaða hans til frv. var ljós strax og rætt var um frv. í þingflokki sjálfstæðismanna. Hann er á móti frv. og lýsti því þá þegar yfir, þannig að sú afstaða kemur ekki á óvart.