Tryggingagjald

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 01:56:16 (7398)


[01:56]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Örstutt. Ég virði það að formaður iðnn. skuli flytja þessa ræðu sína og sín sjónarmið. Ég vil taka það fram að það sem ég segi er að sjálfsögðu ekki úrskurður eða dómur, en niðurstaða fjmrn. var sú sem ég hef lýst. Ég tel þrátt fyrir það sem kom fram í lögfræðilegri álitsgerð hv. þm., þá eigi Celite Ísland þennan rétt. Ástæðan fyrir því m.a. að fjmrn. tók þá afstöðu sem fjmrn. tók er að ýmis fyrirtæki höfðu gert fyrirspurn um það hvort þau ættu rétt á endurgreiðslu og bentu á það máli sínu til stuðnings að þau væru í eðli sínu útflutningsfyrirtæki því að þau seldu þjónustu sína eingöngu til fyrirtækja sem væru í útflutningi. Með öðrum orðum, staða þeirra væri mjög svipuð Kísiliðjunnar, sala hugbúnaðarins væri eingöngu til t.d. fiskframleiðslufyrirtækja og þess vegna væri um að ræða virðisauka til útflutnings og það ætti að taka tillit til þess. Það var ekki talið fært samkvæmt þessum lögum með sama hætti og varðandi Kísiliðjuna.
    Ég minni á vegna innbyrðis samstöðu sem minnst var á að það kemur stundum fyrir að fjmrn. hefur farið í mál vegna niðurstöðu yfirskattanefndar og ég veit að ef hv. þm. rifjar upp fyrir sjálfu sér, þá gerðist það að fjmrn. vann í máli gagnvart Sameinuðum verktökum sem var upp á mörg hundruð millj. kr. sem skattkerfið hafði bent á eða úrskurðað. Fjmrn. var ósammála og dómstólarnir studdu fjmrn. gegn niðurstöðu skattkerfisins.