Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 02:06:51 (7403)


[02:06]
     Ingi Björn Albertsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Við inntum þann forseta sem sat í forsetastóli fyrr í nótt, fyrir rúmum klukkutíma síðan, um framhald fundarins og ég taldi að það mætti skilja hans orð á þann veg að það yrði tekið fyrir eitt mál enn, þ.e. tryggingagjald, og síðan yrði umræðum lokið. Nú heyri ég að forseti hyggst taka fyrir hið svokallaða villidýrafrv. og ég vil leyfa mér að mótmæla því vegna þess að umræðu um það mál var frestað í dag á þeim forsendum að umhvrh. og formaður umhvn., þeir aðilar sem bera hitann og þungann af þessu máli, eru ekki á landinu. Við þeirri ósk varð sitjandi forseti þá og frestaði umræðunni. Þar af leiðandi sé ég ekki á hvaða forsendu þessi umræða á nú að hefjast.
    Ég vil líka leyfa mér að mótmæla því í annað sinn í nótt að það skuli eiga að keyra hér áfram, klukkan er núna 10 mínútur gengin í þrjú að nóttu. Á mánudaginn vorum við hér til kl. 4 um nótt, þriðjudaginn til kl. 4, miðvikudaginn til kl. 12 og núna er klukkan 10 mínútur gengin í 3. Þetta er að gerast á sama tíma og við erum að tala um það að hugsanlega flytja einhverja tillögu 17. júní á Þingvöllum um mannréttindi. Ég vil segja það að mannréttindi eru þverbrotin á þingmönnum, þau eru þverbrotin. Það er ætlast til þess að fólk komi hér aftur kl. 8 í fyrramálið eftir slíka viku. Ég segi það fullum fetum að mannréttindi eru brotin hér og ég mótmæli því harðlega að fundi sé haldið áfram. Og ég vil benda á það að einn hv. þm. var á mælendaskrá í þessu máli en treysti sér ekki til að vera lengur vegna þess að það er gersamlega keyrt yfir þingmenn hér, gersamlega, og ég mótmæli því harðlega og fer vinsamlegast fram á það að þessari umræðu verði frestað áfram og fundi slitið.