Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 02:11:27 (7406)


[02:11]
     Ingi Björn Albertsson (um fundarstjórn) :
     Hæstv. forseti. Ég vil aðeins segja vegna orða starfandi umhvrh. að það er mjög nýlegt fordæmi fyrir því að umræðu var frestað og beðið eftir ráðherra sem var erlendis þrátt fyrir að það væri starfandi ráðherra í hans stað. Sá ráðherra var hæstv. ráðherra Jón Baldvin Hannibalsson. Það er varla meira en vika til tíu dagar síðan hér var beðið eftir að hann kæmi til að menn gætu átt við hann orðastað. Fordæmið er því alveg skýrt og það er í engu verið að kasta rýrð á starfandi umhvrh. eða starfandi formann nefndarinnar. Það eru bara hinn eiginlegi ráðherra og hinn eiginlegi formaður nefndarinnar sem hafa borið hitann og þungann af þessu máli og hafa verið í umræðunni og það eru þeir, þessir tveir hv. þm., sem ég alla vega óska að eiga orðastað við. Þó starfandi ráðherra og starfandi formaður nefndarinnar séu allra góðra gjalda verðir þá hlaupa þeir ekkert beint inn í það hugarfar sem þessir tveir þingmenn hafa.