Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 02:18:14 (7411)


[02:18]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (um fundarstjórn) :
     Virðulegi forseti. Ég veit ekki hversu mikil ástæða er til þess að teygja lopann í þessum efnum en mér finnst menn tala í þá veru að ekkert hafi verið unnið í þessu máli og menn hafi ekki átt tal saman bæði hér í ræðustóli í almennri umræðu um þessi mál og ekki síður í umræðu manna í millum, fulltrúa þeirra þingflokka sem eiga sæti á Alþingi um ýmis þau mál sem réttilega hafa valdið nokkrum taugatitringi og jafnvel vakið upp álitamál. Sannleikurinn er nefnilega sá að það er almennur stuðningur við þetta mál og

menn hafa talsvert náð saman um meginstef frv. Það vil ég leiðrétta að gefnu tilefni af orðum hv. þm. að mál séu þannig að þau komi lítt eða illa undirbúin til framhalds 2. umr. Þannig er það auðvitað alls ekki. Það er nokkuð almenn sátt um málið og ég hygg að við eigum að sæta lagi og ljúka þessari umræðu.