Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 04:43:05 (7418)


[04:43]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram ítarleg og markverð umræða um margt á lokaspretti 2. umr. um það frv. sem hér liggur fyrir, svokallað villidýrafrv. Ég ætla út af fyrir sig að bæta miklu inn í það sem hér hefur verið sagt, enda er farið mjög rækilega yfir sögu máls, bæði af hálfu hv. 5. þm. Reykv. og síðan hér rétt áðan af hálfu starfandi formanns umhvn. Hún gerði mjög rækilega grein fyrir þeim viðhorfum sem ofarlega voru á baugi í nefndinni.
    Það var hins vegar ástæða til þess að fara nokkrum almennum orðum um þessa löggjöf sem ég hygg að hv. 5. þm. Reykv. eigi skilið að fái almenna umræðu, þ.e. hversu langt á að ganga í löggjöf af þessum toga varðandi leikreglur um umgengni við náttúru landsins og lifandi dýr. Auðvitað er það álitamál hverju sinni hversu langt á að ganga. Ég vil hins vegar vekja á því athygli að hér er lagt til að setja um þau mál rammalöggjöf, en í nærliggjandi löndum er hins vegar farin sú leið að fara leið hinnar ítarlegu löggjafar og þar af leiðandi lítil þörf fyrir reglugerðarsmíð.
    Mín skoðun er almennt sú í þessu sambandi að leið rammalöggjafar sé hin eðlilega leið og gefi nauðsynlega svigrúm til þess að laga sig að breyttum aðstæðum frá einum tíma til annars og ég skildi ekki hv. þm. öðruvísi en svo að hann væri mér í efninu og aðalatriðum sammála um það, jafnvel svo að honum fannst þessi rammalöggjöf helst til of ítarleg. Á sama tíma hafði hann af því áhyggjur að vald þess sem reglugerðina smíðar og gefur út sé of mikið, þ.e. hæstv. umhvrh. Þarna finnst mér samhengið kannski ekki alveg nægilega skýrt en ég vek á því athygli að það er auðvitað langur vegur frá að í þessu frv. til laga sé gert ráð fyrir því að umhvrh. sé alvaldur og einráður. Í flestum tilfellum er kveðið skýrt á um það að hann kalli sér til ráðgjafar og umsagnar í upphaflegu frv. kölluð villidýranefnd þar sem að koma fjölmargir þeir aðilar sem gerst þekkja af langri reynslu og almennri þekkingu þannig að maður skyldi auðvitað ætla að þar með sé tryggt að sem flest sjónarmið nái eyrum þess ráðherra sem með útgáfu reglugerðar hefur með að gera og þannig tryggt að framkvæmdin gangi sem snurðulausast fyrir sig því að það er sannarlega rétt að við lagasetningu af þessum toga skiptir auðvitað mjög miklu máli hvernig til tekst þegar til framkvæmdarinnar kemur.
    En við skulum hins vegar ekki gleyma því að hér er auðvitað ekki verið að stíga fram á fullkomlega ókunna slóð því að vissulega hafa verið í gildi lög og reglugerðir um

langflesta þá þætti sem við erum hér að fjalla um. Hér er með öðrum orðum verið að steypa í eina heildstæða löggjöf, sem ég held að sé skynsamlegt skref, fjölmörgum lögum og reglugerðum, sumum lítt eða ekki breyttum, öðrum að vísu breyttum. Þegar grannt er skoðað, þá hygg ég að hv. 5. þm. Reykv. sé kannski ekki ósammála þeirri stefnumörkun sem hér er lögð þó að hann hafi í alllöngu máli haft af því áhyggjur að hér væri um oflöggjöf að ræða, hér væri löggjafarvaldið að vasast í hlutum sem það hefði ekkert með að gera og ætti ekkert að blanda sér í. En ég vek á því athygli að í samanburði við aðrar þjóðir er ekki verið að gera það. Ég vek á því athygli líka sem hefur komið fram í umræðum aftur og aftur að þeir aðilar sem best þekkja hafa þvert á móti óskað eftir því að leikreglur væru tiltölulega skýrar og klárar og það ætti hv. þm. Ingi Björn Albertsson kannski manna best að vita að í öllum leik skal eftir reglum fara og jafnvel svo þannig að menn þurfa að hafa félagsskírteini upp á vasann og ekki spurt um fimmhundruðkallinn eða þúsundkallinn í því sambandi. Þegar að sportþætti þessara mála er vikið, þá hygg ég að hv. þm. ætti nú að vera öllum hnútum kunnugur. Hitt er svo alveg ljóst og ég tek undir það með honum að vissulega þarf að líta sérstaklega til þeirra aðila sem hafa af því atvinnu og ala önn fyrir sér og sínum með veiðum á villtum dýrum. Ég hygg að fyrir því sé séð í þessu frv. og einnig verði fyrir því séð mjög rækilega við framkvæmd þessara laga.
    Að öðru leyti held ég að flestum efnisatriðum sem til álita hafa komið við þessa umræðu hafi verið til haga haldið og er það vel þannig að það skal ekki spyrjast um mig að ég kvarti yfir því að menn vilji halda öllu til haga með greinargóðum hætti eins og verið hefur. Á hinn bóginn sé ég kannski ekki hinn praktíska þátt í því að rifja hér upp fyrir þingheimi ræður manna fyrr á árum þótt þær kunni að hafa verið góðar sumar hverjar.
    En allt að einu, virðulegi forseti, þá tel ég að nú sé mál að linni í 2. umr. en að öðru leyti vil ég þakka fyrir þessa ítarlegu og um sumt ágætu umræðu þó að hún hafi verið misjöfn með köflum eins og gjarnan er.