Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 04:50:09 (7419)


[04:50]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka formanni umhvn. og hæstv. umhvrh. fyrir þann heiður að fá að hlusta á þau hér veita nokkur svör við hluta af þeim spurningum sem ég bar fram en nokkurra sakna ég. Ég ætla aðeins að hlaupa á því sem ég punktaði niður við að hlusta á tvo hv. síðustu ræðumenn.
    Hv. formaður umhvn. sagði að það hefði ekki verið tekið tillit til allra athugasemda og ekki hægt að taka það allt til greina. Auðvitað geri ég mér fyllilega grein fyrir því enda laut spurning mín ekki að því heldur var hún meira um það hvernig hefði verið tekið á málunum og hvaða rök hefðu verið með og móti tilteknum málum.
    Það vita það allir að það koma alls konar sjónarmið fram í nefndum og það er auðvitað ekki hægt að taka tillit til þeirra allra, það liggur alveg ljóst fyrir þannig að það var einhver misskilningur þar á ferðinni.
    Síðan var rifjuð upp umræðan um að það væru ekki veigamikil rök eins og hv. þm. notaði fyrir frestun á umræðu að það vantaði hér ráðherra að því er ég taldi. Ég rifjaði það nú samt upp fyrr í umræðunni að það væri mjög nýlegt fordæmi fyrir því að beðið væri eftir sjálfum formanni Alþfl., hæstv. utanrrh., til þess að hann gæti verið viðstaddur umræðu. Þá voru þau rök alveg nógu góð. Ég veit ekki hvað hefur breyst á þessum þrem vikum en eins og fram kom seinna í máli formanns nefndarinnar þá er greinilega gert ráð fyrir því í Alþfl. að menn skipti mjög skarpt um skoðun.
    Bæði hæstv. ráðherra og hv. formaður ræddu um miðstýringu og það var ágætt. Hv. formaður nefndarinnar taldi að þetta væri á misskilningi byggt. Það er það engan veginn og ég held að það geti enginn heilvita maður komist frá því að viðurkenna að meiri miðstýring er ekki til en í þessu frv. vegna þess að allir spottar liggja upp til ráðherrans, allir spottar liggja upp og þaðan er stýrt út og það er það sem menn eru að tala um þegar þeir tala um miðstýringu. Ég get farið hér ef þingheimur vill, jafn vel mannaður og hann er, yfir allar þessar greinar. Ég fór ekki yfir nema hluta af þeim áðan en það er alveg ljóst að hver einasti þráður liggur upp til ráðherrans. Ef menn eru ekki tilbúnir til að viðurkenna að það sé miðstýring þá er bara miðstýring ekki til. Hún gerist ekki meiri þannig að þetta er miðstýring af þeirri mögnuðustu gerð sem ég hef séð. Það er enginn misskilningur þar á ferðinni. Það er frekar að hv. formaður hafi eitthvað misskilið þetta.
    Hv. formaður taldi að ég vildi fastsetja veiðitíma í lögum. Það er alveg rétt. Ég vil gera það og tel að það sé skynsamlegri leið en alfriðun. Það kemur reyndar inn á það sem hæstv. ráðherra sagði að sá hátturinn að hafa skýra löggjöf er auðvitað það sem ég er að tala um. Eins og hún er í dag, þá er hún auðvitað alveg opin. ( Heilbrrh.: Þá er ekki hægt að lengja tímabilið.) Þá er ekki hægt að lengja? Það er hægt að lengja tímabil vegna þess að þú verður að hafa ákveðinn sveigjanleika þar inni en í dag er sveigjanleikinn allur í því að valdið er allt uppi hjá ráðherranum. Hann er sá eini sem hefur sveigjanleika. Auðvitað fara ráðgjöf og umsögn frá villidýranefnd en það er ráðherra sem ræður að lokum og hann er ekki skuldbundinn að því að fara eftir ráðgjöf eða umsögn villidýranefndar. Það kemur hvergi hér fram þannig að það er bara rangt. En það er rétt að ég vil að löggjöfin sé sem skýrust og menn reyni að sneiða eins og mögulegt er fram hjá reglugerðarákvæðum. Það er fyrst og fremst gerningur framkvæmdarvaldsins og þeirra sem standa að þessu. Þeir vilja fá þetta vald inn til sín og við höfum ekki heimild til þess að vera að afsala löggjafarvaldinu um of yfir til framkvæmdarvaldsins. Þetta hélt ég bara almennt að þingmenn væru sammála um. Alla vega kemur þessi umræða reglulega upp í nefndum að þessar opnu reglugerðarheimildir sem þingið er sífellt að veita, verði að fara að stöðva. Ekki stöðva þær kannski 100% en draga verulega úr því og þetta hélt ég bara að allir þingmenn væru sammála um, en það er hugsanlega ekki.
    Að tala um að það sé sveigjanlegt stjórnkerfi varðandi veiðikortin stenst ekki og þau séu grundvöllurinn fyrir því að það sé hægt að stunda rannsóknir. Halda menn að það hafi ekki verið hægt að stunda rannsóknir hér í gegnum árin? Það eina sem menn eru að segja núna er það að veiðiskýrslan eigi að vera grundvöllurinn undir því. Ég er ekki sammála því. Ég er sammála því að ég treysti veiðimönnum til að skila inn sínum veiðiskýrslum og aflatölum og þeir munu örugglega gera það og þurfa ekkert veiðikort til. Reyndar sakna ég þess svolítið að það kom ekkert inn á það hvort senda ætti bændur alla í hæfnispróf varðandi veiðar og meðhöndlun á byssum. Mér finnst það bara verulega stór þáttur. Mér finnst að það verði að koma fram þau skilaboð til bændastéttarinnar í landinu að hún eigi að fara að þreyta próf, menn sem eru búnir að stunda veiðar frá blautu barnsbeini. Þeir menn eru auðvitað fæddir veiðimenn, það er engin spurning. Það er fólkið á mölinni sem er auðvitað ekki fæddir veiðimenn en það fer enginn út að skjóta nema hann hafi byssuleyfi og það fær enginn byssuleyfi nema hann hafi tekið námskeið og gengið í gegnum það hjá lögreglunni í Reykjavík eða sýslumanni eða hver sem það er og þar er farið yfir byssuna, hvernig hún er til, hlaupvíddin og allt sem snýr að byssunni og það er farið yfir dýrategundirnar, veiðitímabilin og allt slíkt þannig að það er svona í þokkalegum höndum. En það er með það eins og allt annað að það má auðvitað efla það. En það eru engin rök fyrir veiðikortinu.
    Ég veit ekki alveg hvað hv. þm. átti við þegar hann sagði að við værum að dragast aftur úr. Ég hef ekki orðið var við það hjá veiðimönnum yfir höfuð að það sé einhver stór skandall þar á ferðinni. Yfir höfuð ganga veiðimenn vel um. Í þessu eins og öllu öðru eru nokkrir afglapar sem koma óorði á hina sem eru að reyna að standa sig vel. Á þeim mönnum á að sjálfsögðu að taka mjög hart. Það á t.d. að taka mjög hart á þeim sem elta villibráð eða bráð á fjórhjólum og stunda veiðar með alls konar tækjum og tólum sem er ekki íþróttamannsleg veiðiaðferð. Á þeim á að sjálfsögðu að taka en það á ekki að láta alla hina líða fyrir það með því að setja einhverja löggjöf sem þar að auki er ekki hægt að fylgja eftir.
    Það var athyglisvert að heyra það að enginn í nefndinni gerði athugasemd við 1.500

kr. gjaldið og það sérstaklega á þeim degi sem hér var dreift mjög svartri skýrslu um skuldastöðu heimilanna. Það var afar athyglisverð að heyra það vegna þess að ég held að nefndin sé í engum tengslum við þetta veiðimannaþjóðfélag sem við erum að tala um eða skotveiði yfirleitt, engum tengslum. Ég þori að fullyrða það að 90% af þeim sem veiða er láglaunafólkið í landinu, það er láglaunafólkið. Það eru bændurnir og einhverjir lægra settir menn. Topparnir eru ekki að hlaupa þarna svo mikið þannig að 1.500 kallinn hjá því fólki er bara ansi mikill peningur.
    Það má segja að þetta sé kannski sama hugarfarið og birtist í þingsalnum hjá stjórnarliðinu við breytingartillögu sem sá sem hér stendur var með við aukatekjur ríkissjóðs þegar Alþfl. og Sjálfstfl., að þeim sem hér stendur undanskildum, greiddu atkvæði gegn því að smásalar greiddu sama verð fyrir leyfin sín og lyfsalar, apótekarar. Þingið afgreiddi 5 þús. kr. leyfisgjald fyrir að fá að reka apótek en hafnaði því að smásalan fengi að borga 4 þúsundkall, nei, hún á að borga 50 þúsund kall. Það er kannski sama hugsunin sem kemur þarna fram.
    En skondið fannst mér að heyra þetta með ártalið af því ég vitnaði svolítið, hæstv. forseti, í ræðu yðar fyrir tveimur árum síðan. Þá kom nú svolítið skondið fram. Hæstv. forseti er að þroskast svolítið og hefur skipt um skoðun eða það var von og ósk hv. formanns umhvn. Ef þetta er festan í Alþfl. þá hlýt ég að spyrja: Er víst að hv. formaður umhvn. hafi þessa skoðun eftir tvö ár? Er hún þá ekki bara komin á mína skoðun þá? Það er bara greinilega engu að treysta. En ég er alveg klár á því að hv. þm. Gunnlaugur Stefansson stendur við þau orð sem hann sagði hér um tiltekin atriði. Ég er alveg klár á því og það mun koma í ljós þegar atkvæðagreiðslan fer fram. ( PBald: Enda fullyrti ég ekkert um það.) Já, við skulum fara varlega í frammíköllin, hv. þm. ( PBald: Ég fullyrti ekkert um það.)
    Varðandi sameinaðar reglugerðir, sem hv. þm. kom hér inn á, þá skiptir það í sjálfu sér engu máli hvort heimildin er notuð til þess að gefa reglugerðirnar út sameinaðar eða eina og eina í einu. Það breytir akkúrat engu máli. Það er nákvæmlega sama vald í höndum ráðherra, nákvæmlega sama miðstýringin.
    Svo fundust mér ansi hörð viðurlögin sem hv. þm. sagði að væru ef viðkomandi hefði ekki veiðikort. ( PBald: Drög að reglugerð.) Það held ég að gangi nú ekki. Hún las hér upp refsiákvæðin. Þau varða sektum, varðhaldi eða fangelsi og sviptingu skotvopna og veiðileyfis. Það þykir mér ansi hörð viðurlög við að hafa ekki veiðikortið á sér. Ég held að það gangi ekki eftir, ég held að það sé einhver misskilningur í því. Tíu punktana ætla ég aðeins að geyma.
    Ég saknaði líka, bæði frá hæstv. ráðherra og hv. formanni nefndarinnar, að hvorugt gerði tilraun til að svara því hvað ylli þessum asa, hvers vegna þetta mál væri í slíkum forgangi að menn eru þvingaðir til að standa hér, nú er klukkan að ganga 6 um morgun, og ætlast til þess að þingmenn séu mættir kl. 10 á fund. Ég verð að segja eins og er að ég yrði að vísu ekkert hissa þó það kæmi ekkert svar því að það er ekkert svar til annað en hugsanlega það að umhvrn. þarf að sýna einhvern árangur, að það hafi komið einhverju máli í gegn. Ég hefði valið mér eitthvert betra mál eða betur unnið skulum við frekar segja, vegna þess að vissulega er margt gott í þessu máli, enda hef ég ekki gagnrýnt nema í raun og veru þrjá þætti í frv. ( PBald: Þetta er mjög vel unnið mál.) Hv. þm., formaður nefndarinnar, segir að þetta sé mjög vel unnið mál. Ég skal taka undir að þetta er mjög mikið unnið mál, en það getur ekki verið mjög vel unnið því að eins og hv. formaður veit þá var fundur í nefndinni --- maður verður víst að segja í gær, þar sem enn voru að koma fram breytingartillögur við frv. þannig að eitthvað hefur ekki verið nógu vel unnið fyrir utan að frv. sjálft hlýtur að vera illa unnið því að það er slíkur fjöldi af breytingartillögum kominn fram að hann er tvöfaldur greinafjöldi frv. Það er því augljóst að frv. er illa unnið. Að vísu heyrði ég það frá ábyrgum aðila að eins og búið væri að hræra mikið í því hefði það sennilega verið best, eins og hann sagði, eins og það var upphaflega þó að ég taki ekki undir það.
    Hv. þm. vildi meina að ég hefði haft einhverjar meiningar í 1. umr. um metrafjöldann. Það held ég að sé misminni. Ég hef ekki gert athugasemd við 50 metrana. Ég gerði athugasemd við 250 metrana og þeir komu ekki fyrr en í breytingartillögum frá nefndinni.
    Hæstv. ráðherra talaði um að þetta væri rammalöggjöf sem auðvitað er rétt og gæfi sveigjanleika. Hvað sveigjanleika gefur þessi rammalöggjöf? Hún gefur bara ráðherranum sveigjanleika. Það er nú allur sveigjanleiki í löggjöfinni, allir spottarnir upp. En hann vildi meina að þetta væri ekki svo, þetta væri ekki alræðisvald ráðherra vegna þess að hann ætti að þiggja ráðgjöf og umsögn frá villidýranefnd. Að sjálfsögðu mun virðulegur ráðherra, hver sem hann er á hverjum tíma, þiggja ráðgjöf og umsögn, enda ber honum að gera það, en það er ekkert sem skyldar hann til að fara eftir þeim þannig að valdið er allt hjá einum aðila í öllum þessu málaflokki. Það er alveg ljóst.
    Ég vil ítreka að það er margt gott í þessu frv. og ég var ekki að eyða þessum dýrmæta tíma næturinnar í að fjalla um það, enda erum við að skiptast á skoðunum um þetta til þess og í þeirri von að það sé hugsanlega hægt að gera málið enn betra, ef við notum það orð.
    Hæstv. ráðherra fór í íþróttaviðmiðanir og sagði að í öllum leik skuli fara eftir reglum eða eitthvað slíkt. Það er auðvitað alveg hárrétt. En í öllum leikjum eru líka dómarar og dómarar hafa alveg skýra löggjöf. Þeir hafa einstaka atriði sem er sveigjanleiki í en þeir hafa ekki sveigjanleika í nánast öllu. Það er aðeins munur. En bara út af félagsskírteinum og slíku þá er hægt að halda langt mál um það og hvaða ófremdarástand er ríkjandi í þeim málum gagnvart fjölskyldum landsins og er að verða til þess að fjöldi fjölskyldna hefur ekki efni á því að senda börnin sín í íþróttir. ( Gripið fram í: Það er rétt hjá þér.) En það er mál sem við ættum að taka annars staðar og þá verðum við sammála alla leið.
    Aðeins af því að mér fannst liggja í orðunum að ég hefði verið að lesa upp úr ræðum margra manna þá var það ekki. Ég las bara upp úr ræðum tveggja manna, örlítið úr ræðu hv. þm. Árna Johnsens og svo örlítið úr ræðu hæstv. forseta sem nú situr í forsetastóli.
    Virðulegi forseti. Það eru nokkrar spurningar sem ég sakna þess að fá ekki svar við. Ég er að velta fyrir mér hvort við eigum að tala bara fram að fundi kl. 10 eða hvort á að taka þetta í 3. umr. Ég tel að þetta mál eigi að fara aftur til nefndar, það má vera eftir atkvæðagreiðslu við 2. umr., vegna þess að það kom fram hjá formanni umhvn. að það bréf sem ég vitnaði til áðan og er dagsett eins og hún sagði 28. apríl kom of seint því að þá var málið komið út úr hv. umhvn. Þá tel ég eðlilegt að milli 2. og 3. umr. líti nefndin yfir þetta bréf og sjái hvort hún geti fallist á eitthvað sem þar kemur fram eða hvort það er eitthvað í þessu sem gerir lögin jafnvel enn betri. Mér finnst það því ekki óeðlilegt og ekki óeðlileg ósk heldur að það verði gert.
    Ég ætla að láta þetta duga, en ég mun rifja upp þær spurningar sem ekki var svarað núna áðan seinna í dag þegar 3. umr. fer fram.