Leikskólar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 10:39:11 (7433)


[10:39]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að fulltrúar úr Sambandi ísl. sveitarfélaga áttu aðild að undirbúningi málsins. Það var hins vegar mjög sérkennilega farið með undirbúning þessa máls. Ég veit ekki hvort menn gera sér almennt grein fyrir því. Það var farið þannig með undirbúning þessa máls að það var skipuð nefnd eftir tilnefningum. Síðan var ákveðið í nefndinni að banna öllum fulltrúum í nefndinni að tala um það sem gerðist þar og ákveðið væri þar út fyrir raðir nefndarinnar. Það var t.d. bannað að fara með málin inn í Fóstrufélag Íslands þannig að það var ekki fyrr en frv. var fullsamið að fulltrúi Fóstrufélagsins gat ráðfært sig við sitt félag með formlegum hætti. Þannig að það er auðvitað býsna óvenjulegt lýðræði sem

tíðkast í þessum efnum, að fulltrúar viðkomandi samtaka skuli ekki geta ráðfært sig við þau á undirbúningsstigi málsins.
    Það hafa viðgengist í seinni tíð mjög sérkennileg vinnubrögð í menntmrn. að því er varðar lýðræði í hinum margvíslegu nefndum sem hafa verið skipaðar þar í seinni tíð. Staðreyndin er líka sú að þó að þarna væru fulltrúar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga þá lá hitt aðalatriðið fyrir, að formleg umsögn stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga hafði ekki borist um málið. Ég hygg að það hafi verið ég sem í menntmn. óskaði eftir því að framkvæmdastjóri sambandsins yrði kallaður fyrir og hann léti í té skriflega umsögn án þess að um væri að ræða formlega stjórnarsamþykkt sambandsins. Mér finnst það ekki sanngjarnt að segja svo: Samband ísl. sveitarfélaga hefur átt fulla aðild að málinu. Það er ekki rétt þó svo dregnir hafi verið inn í málið í upphafi fulltrúar frá sambandinu sem máttu svo ekki tala við sambandið samkvæmt reglum sem samþykktar voru nefndinni meðan var verið að semja textann.