Leikskólar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 10:41:38 (7434)


[10:41]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég á lítið erindi í ræðustól annað en að þakka hv. þm. Guðrúnu og Svavari fyrir stuðning þeirra við þessa brtt. Ég vil taka sérstaklega undir það sem kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að hv. þm. Guðrún Halldórsdóttir er örugglega með meiri reynslu og þekkingu í samskiptum við nýbúa en nokkur annar þingmaður sem situr á Alþingi Íslendinga. Ég minnist þess einnig að það viðhorf kom fram við umræður um þetta mál sem hún lýsti varðandi trúfrelsið og umburðarlyndi gagnvart öðrum trúfélögum. Hins vegar skal ég játa að mér varð það þó nokkuð umhugsunarefni hvernig það ætti að koma því inn í hinn orðaða texta en reyndi að leysa það á svipaðan hátt og hv. þm. Svavar Gestsson gat um, þ.e. stjórnarskráin leysir þetta á tvo vegu. Annars vegar veitir hún ákveðinni trú viss forréttindi en undirstrikar svo jafnframt í stjórnarskránni rétt til trúfrelsis. Og það má segja að þess vegna er þetta sett seinna inn í textann, sett inn í 12. gr. og undir ákvæðinu ,,þrátt fyrir``.