Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 10:43:51 (7435)


[10:43]
     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta menntmn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum.
    Nefndin hefur fjallað um málið sem varðar breytingu á lögum nr. 83/1993 sem sett voru á 116. löggjafarþingi eftir ítarlega umfjöllun í menntmn. Nefndin lagði þá til breytingu á framlögðu frv. sem fól í sér að lögin tækju einungis til tilskipunar 89/48/EBE sem varðar almennar reglur um viðurkenningu menntunar og starfsréttinda að lokinni þriggja ára sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi. Í frv. þessu er lagt til að lög nr. 83/1993 taki einnig til tilskipunar 92/51/EBE sem felur í sér reglur um viðurkenningu á starfsmenntun sem krefst starfsþjálfunar og menntunar á framhaldsskólastigi eða háskólastigi og tekur skemmri tíma en þrjú ár. Tilskipanirnar taka einungis til starfsmenntunar sem hlotið hefur löggildingu, leyfi eða aðra jafnsetta viðurkenningu.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.