Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 10:52:48 (7441)


[10:52]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það voru nokkuð sérkennileg orðaskipti sem hv. 3. þm. Norðurl. e. knúði fram hér áðan og nokkuð merkilegt að Framsfl. skuli liggja svona mikið á að á andsvaragrunni við þetta litla mál skuli vera saumað að Kvennalistanum með þeim hætti sem hv. þm. gerði og þar á meðal einnig öðrum sem standa að þessu minnihlutaáliti. Það var mjög merkilegt, mjög merkilegt. ( BBj: Það er fast að orði kveðið.) Hvað var fast að orði kveðið, hv. þm.? Að það væri saumað að þeim? Já, það má segja það kannski.
    Staðreyndin er auðvitað sú að þó að Ísland sé aðili að Evrópsku efnahagssvæði þá höfum við frelsi til að gera ekki allt það sem þaðan kemur. Við höfum frelsi til þess, dásamlegt frelsi til að gera bara það sem okkur sýnist. Það liggur þannig. Og reyndar er það ekki bara svo að við höfum frelsi til þess heldur er það stjórnarskrárbundin skylda okkar að meta hlutina eins og þeir koma frá Evrópsku efnahagssvæði. Auðvitað er það svo að mikið af þeim atriðum sem fram koma frá Evrópsku efnahagssvæði og Evrópukerfinu eru þannig að það er óþolandi staða sem Alþingi er sett í. Þeir eru horfnir af borðunum haugarnir af bókunum, upp á mörg þúsund síður, sem hér voru í margar vikur. Það er alveg ljóst að við áttum mjög litla möguleika, of litlar aðstæður og slakar til að kynna okkur það sem stóð í þessum gögnum.
    Auðvitað hljótum við að meta þessi mál frá máli til máls og efni þeirra frá máli til máls. Í því sambandi bendi ég t.d. á að það var samþykkt hér nýlega frv. til laga um orkumerkingar og hávaðamerkingar á heimilistækjum, hið merkasta mál, hið merkasta neytendamál og í raun og veru öryggismál fyrir neytendur. Það var samþykkt nær samhljóða í þessari stofnun á grundvelli málsins sjálfs. Ég hef a.m.k. fyrir mitt leyti, og ég hygg fleiri hér, haft þá stefnu varðandi þessi mál að meta hvert mál fyrir sig og ég neita því algerlega að láta taka af mér þann rétt sem ég hef sem þingmaður til að meta sjálfur málin sjálfstætt.
    Það hefur komið fram líka í sambandi við þetta mál að það er afar seint fram komið og það eru þó nokkrar stéttir sem þetta frv. tengist sem hafa ekki fengið að sjá það. Þetta frv. snertir t.d. skipstjórnarmenn og stýrimenn. Þetta frv. snertir vélstjóra. Þetta frv. snertir þroskaþjálfa. Þetta frv. snertir með öðrum orðum stéttir sem eru með menntun úr framhalds- og sérskólum eða byrjun háskólastigs sem er skemmri en þrjú ár. Stórir hlutar af þessu fólki vita ekkert hvað í þessu plaggi stendur sem nú á að gera að lögum og samt sem áður undrast menn að við, ég og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, skulum láta okkur detta í hug að málið sé a.m.k. skoðað pínulítið betur og þess vegna höfum við setið hjá við málið. Okkur finnst ekki liggja á að ljúka málinu.
    Þess vegna tel ég af þessum rökum og öðrum sem ég hef rakið, en rökin eru margþætt, að það sé algerlega fráleitt að standa að málinu eins og hv. meiri hluti nefndarinnar leggur til að gert verði. Þá fer málið væntanlega í gegn á grundvelli og á ábyrgð meiri hlutans og við höfum út af fyrir sig ekki verið með tillögur um það að menn greiði atkvæði gegn þessu frv. Við teljum hins vegar að meiri hlutinn, Alþfl. og Sjálfstfl. og einhver hluti af Framsfl., eigi að axla þessa ábyrgð. Það er svo einfalt og þannig er það oft á síðustu dögum þingsins að stjórnarliðið tekur að sér að axla ábyrgð á svona málum án þess að stjórnarandstaðan telji sig bundna af því að þurfa að fylgja því í þaula. Það finnst mér algerlega út í hött.
    En það var athyglisvert fyrst og fremst hvernig að þessu var staðið og hvernig umræðan fór af stað. Ég hélt að það yrði ekki mikil umræða um þetta mál, en umræðan fór af stað með þessum athyglisverða hætti að hv. 3. þm. Norðurl. e., alla jafna spakur og prúður þingmaður í sölum, telur sérstaka ástæðu einmitt núna, kannski vegna þeirra kaflaskipta sem eru að verða í Framsfl., til að knýja fram umræður um þetta mál. Það er enn eitt dæmið um það að tiltekinn hópur í Framsfl. telur að hann hafi verið kúgaður svo lengi undir forustu Steingríms Hermannssonar að nú þegar komið er vor og Halldór tekinn við þá skella þingmennirnir sér út á túnið og sjást ekki fyrir og sumir vita hvað kemur fyrir þau dýr --- ekki villidýr --- þau dýr sem lengi vetrar hafa verið í húsi, renna svo út í vorið og lenda einhvers staðar, enginn veit hvar.