Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 11:02:23 (7444)


[11:02]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Hér á það við að sá veldur miklu sem upphafinu veldur. Hvað sem líður samningslyktunum var við upphaf þessa máls gengið frá því að þannig skyldi að málum staðið og við erum hér að takast á við eitt af þeim málum sem samið var um þegar á árinu 1989 að yrði hluti af íslenskum rétti.
    Varðandi framhaldið þá erum við líka að sinna lokaáfanga þeirra mála sem þá var um samið að yrðu hluti af íslenskum rétti. Framvegis getum við sem alþingismenn átt aðild að málatilbúnaði á mótunarstigi slíkra mála og það mun horfa allt öðruvísi við þegar fram líða stundir varðandi þessa málaflokka en er nú því að við erum að sinna leifunum af þeim stóra lagagrunni sem samþykkt var á árinu 1989 að yrði hluti af EES-samningnum.