Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 11:03:34 (7445)


[11:03]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er alveg viss um það að hv. 3. þm. Reykv. viðurkennir að það er réttur okkar að hafa sjálfstæða afstöðu til mála eins og þess sem hér liggur fyrir. Ég er viss um að hv. 3. þm. Reykv. viðurkennir líka að það er skylda okkar að meta hvert mál eins og það liggur fyrir. Ég er þar með viss um að hv. 3. þm. Reykv. viðurkennir að við eigum ekki að taka málin eins og þau séu sjálfgefinn hlutur eða dómur heldur meta þau hvert í sínu lagi við þær aðstæður þar sem þau koma upp. Þess vegna er ég sannfærður um það að þegar hann skoðar þessi mál af allri sanngirni þá telur hann eðlilegt að stjórnarandstaðan við þær aðstæður sem nú eru uppi, að það á að knýja fram mál sem hefur fengið litla skoðun, segi við þær aðstæður: Við treystum okkur ekki til þess að standa að þeirri afgreiðslu og kjósum þess vegna að sitja hjá um málið. Þess vegna hygg ég að þegar allrar sanngirni er gætt, þá viðurkenni menn hlutina með þeim hætti sem ég hef hér rakið.
    Hitt vakti athygli mína að einn af þingmönnunum í stjórnarandstöðunni fann sérstaka ástæðu til að finna að málflutningi hv. frsm. minni hlutans Kristínar Ástgeirsdóttur með þeim hætti sem kom fram og ég rakti hér áðan.