Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 11:10:24 (7450)


[11:10]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það voru mér virkileg vonbrigði áðan að verða vitni að því að hv. þm. Björn Bjarnason, sem mikið hefur hlotið í vöggugjöf og mikils hefur notið í lífinu, skyldi falla í þá gryfju í málflutningi að ganga lengra en sannleikurinn leyfði. Það er nú einu sinni svo að hv. þm. Svavar Gestsson á ekki aðild að núv. ríkisstjórn. ( BBj: Hann átti aðild.) Hann getur ekki hafa átt aðild að núv. ríkisstjórn, hv. þm. Björn Bjarnason, en svo hörð er þráhyggjan að það virðist eiga að fara að tengja ríkisstjórnir saman og hafi menn einu sinni átt aðild að ríkisstjórn, þá eigi þeir aðild að ríkisstjórn þeirri sem nú situr.

    Hv. þm. féll í þá gryfju að lýsa því yfir að hv. þm. Svavar Gestsson hefði átt aðild að ríkisstjórn þegar ákveðið var að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópsku efnahagssvæði, sem er íslenskt efnahagssvæði að hluta til í dag eftir að samningurinn var gerður. Þetta er einfaldlega ósatt og það veit hv. þm. Björn Bjarnason. Og þó að allur stráksskapur geti átt rétt á sér á vissum stundum og vissum stað og hafi því miður í heimi blaðamanna verið iðkaður af mikilli list, mikilli hrekkjalist, þá gengur það einfaldlega ekki að hv. formaður utanrmn. Alþingis, Björn Bjarnason alþingismaður, leyfi sér að láta aðrar eins fullyrðingar fara frá sér. Ef þetta væri rétt þá mætti aldrei setjast að samningaborði með neinum aðila án þess að skrifa undir samninga því að sá sem settist að samningaborðinu væri þar með búinn að ákveða að hann ætlaði að semja. Svo er ekki. Menn setjast að samningaborði til þess að reyna að ná samningum. Telji þeir niðurstöðuna ásættanlega skrifa þeir undir. Telji þeir niðurstöðuna ekki ásættanlega skrifa þeir ekki undir. Svo einfalt er það.
    Þeir sem harðast ganga nú fram í því að vilja að við hefjum viðræður við Evrópskt efnahagssvæði og um inngöngu í EB segja ekki: Við eigum að ganga í EB. Ég ætla ekki að bera þessa menn þeim sökum. Þeir segja það ekki heldur segja þeir: Við eigum að setjast að samningaborði og kanna hvaða möguleika við eigum á að ná hagstæðum samningi. Er sanngjarnt að segja við þá menn: Þið ætlið inn í EB hvað sem það kostar? Það hafa þeir ekki sagt.
    Hv. þm. Birni Bjarnasyni er einfaldlega of mikið gefið til þess að leika sér á þennan hátt að þessu máli. Hann hefur alveg skýra afstöðu hvernig við eigum að standa að málum í framtíðinni í þessu máli. Hann hefur lýst henni í útvarpi og sjónvarpi og hefur ekki hikað við að taka þar afstöðu jafnvel þó að hann viti að innan hans raða, Sjálfstfl., eru margir sem eru á öndverðri skoðun.
    Nú er það einu sinni svo að þó að alþingismenn séu á öndverðri skoðun þá er ekki þar með sagt að það sé vopnaburðurinn sem eigi að gilda, að gera mönnum upp afstöðuna og sækja að þeim á þeim á þeim forsendum.
    Ég minnist þess að þegar átök voru um sjálfstæði þessarar þjóðar var deilt um hvoru bæri að hlíta, efnahagslegri framför eða sjálfstæðinu. Það var tekist á um þetta af mikilli hörku meðal Íslendinga. En sá sem leiddi það stríð var aldrei reiðubúinn að gefa eftir tommu í sjálfstæðiskröfunum út á efnahagslegar framfarir. Hann vissi að þær yrðu afleiðing. Ef við hefðum sjálfstæðið í gegn þá mundum við sigla hraðbyri til efnahagslegra framfara og það gerðum við.
    Það frv. sem hér er lagt fram er að því leyti meingallað að í staðinn fyrir að leggja fram heildstætt frv. um að Íslendingar virtu skólakerfi annarra þjóða, annarra menningarþjóða þessa heims og væru reiðubúnir að setja almenn lög um rétt þeirra sem stunda nám í viðurkenndum háskólum erlendis, hvort heldur það væri vestan hafs eða í Evrópu eða í Sovétríkjunum fyrrverandi eða í Japan, svo að ég fari svolítið um heiminn, í staðinn fyrir að setja slíka stefnu á blað að við ætluðum okkur að viðurkenna þessi próf og við ætluðum að sjá til þess að þeir menn sem hefðu slík réttindi hefðu starfsréttindi á Íslandi ef þeir kæmu hér inn til starfa sem íslenskir ríkisborgarar, þá föllum við í þá gryfju sem í sögunni er kennd við kínverska múrinn. Þ.e. einu sinni trúðu Kínverjar því að þeir stæðu framar öllum þjóðum heims. Þeir voru búnir að finna upp púðrið, notuðu það í flugeldasýningar m.a. en ekki til þess að drepa menn, en þeir gátu notað það í þeim tilgangi. Og til þess að aðskilja sig frá barbörum heimsins byggðu þeir Kínverjar múr til að halda þeim fyrir utan. Og því miður er Evrópa í dag á sama þröskuldi fáfræðinnar. Hún er að byggja kínverskan múr utan um þá trú að þar standi menningin hæst, þar sé allt það besta, þar þurfi að verjast því að barbararnir streymi inn fyrir, hvort heldur þeir eru með próf frá Bandaríkjunum eða annars staðar í heiminum.
    Við Íslendingar höfum til þessa haft víðsýni til að falla ekki í þessa gryfju. Við höfum látið Lánasjóð ísl. námsmanna lána mönnum til að stunda nám í Ameríku. Er ætlunin að segja við þetta fólk þegar það kemur heim: Nei takk, þetta próf gildir ekki hér á landi. Þið verðið bara að fara til baka og flytja til Vesturheims. Við erum búin að samþykkja að það verði prófin frá Evrópu sem gildi. Við ætlum ekki að heimila meira. Er það þetta sem menn eru að boða í þingsölum í dag? Er það þessi kínverski múr fáfræðinnar sem menn eru að leggja til að verði samþykktur? Á þá ekki að banna það líka að senda menn til læknis til Ameríku? Verður það ekki skilyrði að annaðhvort skuli þeir fara til Evrópu og drepast þar en alls ekki til Ameríku til læknis? Hvers vegna leggja menn ekki fram slíkt frv. til að tryggja starfsréttindi heilbrigðisstéttanna sem eru þó með lögvarin réttindi í landinu?
    Auðvitað eru tvær leiðir til að uppfylla atriði eins og það hvort við ætlum að virða próf frá erlendum ríkjum eða ekki. Önnur leiðin er að setja almennar leikreglur. Hin leiðin er að múra okkur föst inn í Evrópu. Mér þykir það miður að sú leið skuli hafa verið valin. En þetta frv. er að því leyti sérstætt að það hefði ekki þurft að samþykkja neitt nema 3. gr. Ráðherra hefur heimild til að gera það sem honum sýnist ef í hlut eiga menn frá Evrópska efnahagssvæðinu. Það hefði verið nóg. Hvað eru menn að þvælast með hitt fyrir ofan þegar sett er í 3. gr. að það skuli vera reglugerðarvald ráðherra sem geti veitt undanþágu frá ríkisfangi, búsetu, viðurkenningu á prófum að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga sem felast í tilskipunum þessum eða samningum sam falla undir 1. gr.? --- Nú er hæstv. landbrh. farinn að hlusta.
    Það er nú einu sinni svo ( Landbrh.: Stendur nú í þingmanninum?) að þetta reglugerðarvald er kannski æðsti draumur allra ráðherra, að lagakerfið fari til hliðar og reglugerðirnar taki við. ( Gripið fram

í: Það sparar skrifborðið.) Og við viljum kalla okkur lýðræðislega þjóð. Þeir kjósa forseta í Bandaríkjunum en þeir ráða framkvæmdastjóra yfir Evrópu alveg eins og þeir ráða forstjóra eða framkvæmdastjóra yfir hlutafélög. Delors hefur ekki verið kosinn. ( Gripið fram í: Það eru bara 12 menn sem ráða því.) Hann hefur ekki verið kosinn, hæstv. landbrh. Hann var bara ráðinn. ( Landbrh.: Landbúnaðarráðherra?) Hæstv. samgrh. hlustar í þetta skipti og þess vegna verð ég að breyta ávarpinu.
    Ég spyr sjálfan mig stundum þeirrar spurningar: Er svo komið að Íslendingar telji að við eigum að taka upp menntastríð gagnvart Ameríku, við eigum að taka upp viðskiptastríð á bílum gagnvart Ameríku ef afturljósin eru ekki á réttum stað? ( ÓRG: Þetta hefur samgrh. greinilega ekki fattað.) Þetta hafa menn samþykkt, þetta er það sem boðað er. ( ÓRG: Samgrh.) Og auðvitað geta menn haft þessa trú. En efnahagslega er þetta kolvitlaus stefna fyrir Ísland. Það er nefnilega svo að það skiptir ekki eitt máli hvort við fáum 10% meira eða minna fyrir vöru sem við erum að selja úr landi. Það skiptir líka máli hvort varan sem við erum að kaupa til baka kostar 10 eða 20% meira eða minna og það er það sem Evrópa er að ginna okkur til að gera í stöðunni, þ.e. að með því að gefa eftir tolla á vissum sviðum er verið að þvinga Íslendinga til meiri vöruviðskipta við Evrópu á vöru sem eru miklu dýrari en annars staðar í heiminum. Og með fáránlegum reglum, m.a. um ljós aftan á bílum, er verið að reyna að ryðja ákveðnum tegundum út af markaðnum.
    Ég lít svo á að þetta frv. sé eitt það hraðsoðnasta sem hefur komið inn á Alþingi Íslendinga. Mér er ljóst að hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir, 10. þm. Reykn., tók ekki við þessu frv. sem einhverju baráttumáli sem hv. þm. vildi koma áfram heldur var þetta hluti af pakka sem er réttur. En það væri fróðlegt að fá það niður skráð hvað felst í þessu, hvaða skuldbindingar menn eru að taka yfir í reynd. Það er óskrifað blað því hér er veitt heimild fram í tímann til að ráðskast með íslensk lög alveg eins og ráðherra sýnist ef eftir 10 ár verður breytt um menntastefnu í Evrópu á einhverju sviði. Það veit því enginn hvað hann er að samþykkja. Og nú er svo komið að hv. þm. Björn Bjarnason er farinn að lesa frv. ( SvG: Er það nú víst?) Og eins og oft áður hef ég ekkert of sagt um hans fróðleiksfýsn. Ég hef aldrei efað hana og undirstrika enn að hv. þm. er mikið gefið. En svona frv. sem verður að lögum er náttúrlega til skammar fyrir Alþingi Íslendinga því að menn eru að afsala sér löggjafarvaldinu yfir í reglugerðarvald framkvæmdarvaldsins.
    Hin lýðræðislega staða í Evrópu er fáránleg á því sviði að ofar þjóðhöfðingjum álfunnar eru ráðnir embættismenn. Menn hafa verið að fylgjast með sjónvarpinu íslenska. Það eru misgóðir þættir í þessu sjónvarpi en einn heitir Yes, minister. Og þar er stöðugt stríð, embættismannakerfið vill vera ofar ráðherrunum og hefur í 99% tilfella sigur. Einstaka sinnum nær hann þó vopnum sínum en engu að síður er virðingarskráningin í þessu leikriti alveg á tæru. Ráðherrann á að vera á toppnum og svo koma embættismennirnir. En innan Evrópu eru þeir komnir miklu lengra. Þar er embættismannakerfið endanlega búið að vinna sigur á ráðherrunum og búið að raða þessu upp á nýtt. Þar gerist það ekki að þeim sé hleypt á flakk um stofnunina. Það er hlutur sem ekki gerist innan Evrópusambandsins nýja.
    Ég hélt að hv. þm. Björn Bjarnason hefði örlítið farið að hugsa þegar þeir breyttu nafninu og skírðu þetta samband. Ég hélt að hann hefði vissa tilhneigingu til að meta hlutina dálítið í öðru ljósi þegar menn tóku upp á því að kalla þetta samband í staðinn fyrir bandalag. En jafnvel það hefur ekki orðið til þess að hann kveikti á perunni gagnvart þessum þáttum.
    Ég vil gjarnan að hæstv. menntmrh. lýsi því yfir að hann ætli að virða íslensku stjórnsýslulögin þar sem jafnræðisreglan er sett á íslenska þegna og þar með að hann geri sér grein fyrir því að hann verður að beita sér fyrir því að sérhver sem kemur með próf frá útlöndum og hefur hlotið þar menntun, alveg án tillits til þess frá hvaða ríki hann kemur, skal samkvæmt stjórnsýslulögunum njóta sömu réttinda og þeir sem hafa próf frá Evrópu.