Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 11:33:16 (7453)


[11:33]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Það má segja að það er rétt hjá hv. þm. að maður þyrfti margar klukkustundir til að fjalla um þá furðulegu ræðu sem ég er nú að gera að umtalsefni, en ég ætla ekki að eyða tíma mínum eða annarra í það. Maður verður að lesa þá ræðu til að geta skilgreint það nánar hvað þingmaðurinn fór um víðan völl og staldraði við á furðulegum stöðum í máli sínu.
    Hitt atriðið sem ég vildi gera athugasemdir við er málflutningur hans varðandi þetta frv. Það er allsendis ómaklegt að líta þannig á að hér hafi verið illa að verki staðið. Þvert á móti hefur hv. menntmn. staðið sérstaklega vel að þessu máli því að það stóð til á síðasta þingi að fá þetta mál afgreitt af hálfu framkvæmdarvaldsins en hv. menntmn. hafnaði því og bað um að málið yrði kannað frekar og kæmi aftur fyrir nefndina eftir að málavextir lægju betur fyrir. Þetta getur hv. þm. lesið. Hann var með það í höndunum en virtist ekki hafa lesið það og ekki greinargerðina og ekki áttað sig á sögu þessa máls. Það var fyrir frumkvæði hv. menntmn. að þetta mál var lagt fyrir með þessum hætti til þess að mönnum gæfist tóm til að skoða það og kynna sér það og það er aldeilis ómaklegt af hv. þm., sem á sæti í nefndinni, ég sakna hans að vísu oft á nefndarfundum, að gagnrýna nefndina fyrir meðferð á þessu máli því að hún hefur staðið þannig að því að mínu mati að til fyrirmyndar er.