Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 11:46:52 (7458)


[11:46]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það var vegna ummæla Björns Bjarnasonar, formanns utanrmn., sem ég ákvað að taka þátt í þessari umræðu og væri nú æskilegt ef hv. þm. Björn Bjarnason gæti verið viðstaddur ræðu mína.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti skal láta kalla hv. þm. til þingsalar.)
    ( BBj: Hann er kominn.) Ég vil í upphafi rifja það upp að þegar ákveðið var í tíð síðustu ríkisstjórnar að verða samferða öðrum EFTA-ríkjum í viðræðum við Evrópubandalagið þá var það gert m.a. á grundvelli þeirra viðhorfa sem fram höfðu komið hjá æðsta yfirmanni Evrópubandalagsins að ætlunin væri að reisa til nokkurrar frambúðar svokallað tveggja stoða kerfi í viðskiptaheimi Evrópu. Tveggja stoða kerfið fól það í sér að annars vegar væri Evrópubandalagið og hins vegar væru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins í EFTA sem um nokkuð langt skeið ætluðu sér að starfa utan Evrópubandalagsins. Margir töldu, þar á meðal ég, að þátttaka í þessum viðræðum gæti verið vænlegur kostur til þess að kanna möguleika á því að Íslendingar gætu í samvinnu við önnur ríki þróað varanlegt samskiptaform við Evrópubandalagið án þess að gerast aðilar.
    Ég vil líka rifja það upp að þegar það gerðist að sænski forsætisráðherrann fór að lýsa áhuga Svía á að sækja um aðild að Evrópubandalaginu olli það töluverðri undrun innan síðustu ríkisstjórnar. Það mál var rætt nokkuð í hópi ráðherra og að mig minnir einnig á ríkisstjórnarfundum og talið að þar með væru Svíar að gefa til kynna í fyrsta sinn afneitun á grundvallarforsendunni sem samningaviðræðurnar um hið væntanlega Evrópska efnahagssvæði byggðust á, þ.e. kenningunni um tveggja stoða kerfi.
    Við þekkjum síðan öll þróun málsins. Aðildarríki EFTA sem höfðu tekið jákvæða afstöðu til Evrópska efnahagssvæðisins fóru í aðildarviðræður og það merkilega er að þeim aðildarviðræðum lýkur með jákvæðum hætti á fjórða gildismánuði Evrópska efnahagssvæðisins. Ég fullyrði að ef einhver maður hefði séð það fyrir, innan síðustu ríkisstjórnar eða hér á Alþingi, þegar upphaf viðræðnanna um Evrópska efnahagssvæðið átti sér stað að á fyrstu mánuðum Evrópska efnahagssvæðisins væri búið að ljúka aðildarviðræðum annarra ríkja að Evrópubandalaginu þá efast ég um að menn hefðu kosið að fara þessa leið. Þá hefðu rökin fyrir því að fara strax í samningaviðræður við Evrópusambandið, þá Evrópubandalagið, um tvíhliða samning verið mun sterkari.
    Ég vil í þessu sambandi rifja það upp, þó ég ætli ekki að gera það nú en mun gera það væntanlega síðar í dag þegar til umræðu kemur þingsályktunartillaga um staðfestingu á viðbótargerðum við EES-samninginn, að meginröksemd Alþb. sumarið 1992 fyrir þeirri afstöðu sem við tókum til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði voru þau að í raun og veru væru bæði Evrópubandalagið og önnur aðildarríki EFTA búin að taka ákvörðun um að leggja Evrópska efnahagssvæðið niður. Það er sú röksemd sem vitnað er til í samþykkt þingflokks og miðstjórnar Alþb. og ég flutti rækilega hér í þingsalnum. Þá stóð hæstv. utanrrh. hér hvað eftir annað og fullyrti að það mundu líða mörg ár þar til Evrópska efnahagssvæðið yrði lagt niður vegna þess að það mundi taka svo langan tíma fyrir hin ríkin að ræða við ófreskjuna, marghöfða skrímslið sem hann talaði oft um, Evrópubandalagið. Það er satt að segja dálítið merkilegt að rifja það svo upp svona innan sviga að þessi ágæti hæstv. utanrrh., sem talar nú af miklu stærilæti um vankunnáttu okkar ýmissa annarra í stjórnarandstöðunni á Evrópusambandinu, skuli sjálfur hafa orðið svona ber að fullkomnu vanmati á ákvarðanaferlinu innan sambandsins. Án þess að ég ætli að blanda mér inn í deilur hans og hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, þá held ég að hæstv. utanrrh. ætti að tala af meiri hógværð um hvað er hægt og ekki hægt í samningaviðræðum við Evrópusambandið í ljósi þess að þingtíðindin geyma mjög rækilega fjölmargar yfirlýsingar hans sem ekki hafa reynst raunhæfar.
    Aftur á móti hefur afstaða Alþb., sem við birtum sumarið 1992 og ég gerði rækilega grein fyrir á Alþingi veturinn eftir, að nauðsynlegt væri að marka þegar í stað þá braut að fara í viðræður um tvíhliða samninga reynist vera rétt. Og þó ýmsir leyfðu sér að hæðast að því hér á sínum tíma að ég lagði fram sýnishorn af því hvernig síkur tvíhliða samningur gæti litið út þá sýnist mér nú að það vinnuskjal sé raunhæfara innlegg í framtíð málsins heldur en margt annað, m.a. flest það sem hæstv. utanrrh. sagði um málið.
    Ég vek líka athygli á að í þessari samþykkt Alþb. frá árinu 1992 er lýst hvernig hægt sé að byggja tvíhliða samninginn hvað ákvarðanatöku og eftirlit snertir. Þar er gert ráð fyrir gerðardómi sem hægt væri að koma upp, þar er gert ráð fyrir pólitísku samráði milli ráðherra eða fulltrúa þeirra ef um ágreiningsmál er að ræða og ýmislegt annað sem ég hvet menn til að skoða nú þegar þetta mál er komið á ný á dagskrá.

    Hv. þm. Björn Bjarnason ítrekaði það síðan að núv. ríkisstjórn hefði tekið ákvörðun um það að eiga ekki samleið með öðrum aðildarríkjum EFTA hvað snertir aðildarviðræður að Evrópusambandinu og lýsti því meira að segja yfir að blessunarlega þyrfti ekki í næstu þingkosningum að taka afstöðu til neins gjörnings núv. ríkisstjórnar sem tengdist slíkri för. Vísaði þingmaðurinn síðan í framhaldi til ályktunar Alþingis frá því í maí í fyrra þar sem lýst var yfir eindregnum vilja til að hefja undirbúning að tvíhliða viðræðum Íslands og Evrópusambandsins um frambúðarsamskipti. Ég tel þessa yfirlýsingu vera mjög mikilvæga þó hún hafi fallið hér í andsvari. Ég treysti því að á bak við hana liggi eindreginn vilji og skýr hugsun formanns utanrmn., tel mig reyndar vita það.
    Vandinn í málinu er hins vegar sá að það hefur einn hæstv. ráðherra hvað eftir annað á undanförnum vikum gert sér far um að lýsa því yfir að tími sé kominn til að endurskoða þessa afstöðu ríkisstjórnarinnar. Þessi sami hæstv. ráðherra, formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., hefur jafnframt tekið ákvörðun um að flýta flokksþingi síns flokks og lýst því yfir að meginverkefni flokksþingsins verði að endurskoða afstöðu Alþfl. til aðildarviðræðna að Evrópusambandinu. Og í sjónvarpinu í gærkvöldi var alveg greinilegt að hæstv. utanrrh. hafði allt aðrar áherslur en hæstv. forsrh. hafði í eldhúsdagsumræðum kvöldið áður. Meira að segja var ekki laust við að hæstv. utanrrh. leyfði sér að hæðast að hæstv. forsrh. fyrir ummæli hans.
    Nú er það í sjálfu sér þannig að hægt er að búa við það í okkar stjórnkerfi að einstakir ráðherrar lýsi skoðunum sínum eins og hæstv. utanrrh. hefur gert og það þarf ekki að skapa vandamál. Hins vegar sýnist mér að við stöndum senn frammi fyrir því vandamáli að sá ráðherra sem á að fara með viðræður við Evrópusambandið um nýjan tvíhliða samning sé í raun orðinn andvígur þeirri stefnu sem slíkar samningaviðræður byggjast á. Ég vil segja strax, því miður. Ég hafði vonað að til slíks þyrfti ekki að koma. En ég veit að ég þarf ekki að útskýra fyrir þeim þingmönnum sem eru í salnum og alls ekki fyrir formanni utanrmn. að í ferli slíkra samninga eru fjölmörg tækifæri fyrir þann ráðherra sem mun láta viðræðurnar um tvíhliða samning ganga mjög illa, sigla í strand og skapa hindranir, að gera veruleikann með þeim hætti að hann noti samningaferlið til að búa til þá atburðarás sem knýr á um umræður og síðan ákvörðun um aðildarumsókn.
    Ég get tekið dæmi sem hæstv. utanrrh. hefur lýst opinberlega og hefur reyndar þegar lýst í utanrmn. og ég tel mig þess vegna ekki brjóta neinn trúnað vegna þess að hann hefur lýst því opinberlega. Það er sú skoðun hæstv. ráðherra að umfram allt þurfi að forðast breytingar á EES-samningnum yfir í tvíhliða samning sem þurfi að fara fyrir öll aðildarríki Evrópusambandsins. Þessi röksemdafærsla er út í hött. Það er ekkert dæmi þess að samningur sem framkvæmdastjórnin hefur gert af því tagi sem hér er um að ræða sé ekki staðfestur af aðildarríkjunum. Það tekur tekur stundum dálítinn tíma en það mun örugglega ekki taka lengri tíma heldur samningurinn um EES. En hvers vegna er hæstv. utanrrh. að halda þessu öllu fram? Jú, ef hann gefur sér það í upphafi að það megi ekkert það gerast í viðræðunum um tvíhliða samning Íslands og Evrópusambandsins sem leiðir til þess að aðildarríki Evrópusambandsins þurfi að staðfesta nýjan samning þá er hann búinn að búa sér til tæki sem augljóslega getur skapað slíka erfiðleika í samningaferlinu að þeir sigli í strand.
    Annað dæmi er stofnanaþáttur. Auðvitað getur það hæglega gerst í þessum viðræðum að íslenska sendinefndin hagi málflutningi sínum með þeim hætti að fulltrúar Evrópusambandsins leggi fram tillögur um stofnanaþátt samningsins sem muni óhjákvæmilega knýja á um stjórnarskrárbreytingar á Íslandi. Þar á ég við t.d. tillögur um að eftirlitið sé á vegum framkvæmdastjórnarinnar í Brussel og ágreiningsmál fari fyrir Evrópudómstólinn og það er hægt að finna ýmis rök fyrir þeirri skipan út frá sjónarmiðum Evrópusambandsins. Bæði með því að forðast það að nokkur texti verði lagður á borðið sem þurfi nýja staðfestingu aðildarríkjanna og með því að laða fram hugmyndir frá Evrópusambandinu um Evrópudómstólinn og eftirlitið í höndum framkvæmdastjórnarinnar er hæstv. utanrrh. að sigla samningaviðræðum um tvíhliðasamning í strand.
    Ég held þess vegna að sú spurning geti komið upp, jafnvel þegar í næsta mánuði, hv. þm. Björn Bjarnason, hvort hv. þm. treystir hæstv. utanrrh. til að fara með samningana við Evrópusambandið, samninga sem yrðu byggðir á ályktun Alþingis frá 5. maí í fyrra, ef hæstv. utanrrh. á sínu flokksþingi í næsta mánuði lætur móta þá afstöðu að Íslendingum beri að sækja um aðild. Er eðlilegt að utanrrh., sem er orðinn ósammála ályktun Alþingis frá 5. maí 1993, fari með jafnviðkvæmt mál og slíkar viðræður um tvíhliðasamninga? Nú er ég í sjálfu sér ekki að biðja um svar við því hér og nú, á þessum degi, því málið er vandasamt. En ég taldi nauðsynlegt vegna þessarar mikilvægu yfirlýsingar sem formaður utanrmn. gaf hér áðan, sérstaklega þeim þætti hennar þar sem hann tók það skýrt fram að nú mætti treysta því að í næstu alþingiskosningum þyrfti þjóðin ekki að ganga til kosninga á grundvelli samningaferils sem með einhverjum hætti hefði bundið eða skapað aðstæður fyrir næstu ríkisstjórn. Þar með tel ég að þingmaðurinn sé að segja það, sem ég er honum sammála um, að æskilegt og jafnvel nauðsynlegt sé að ljúka viðræðunum um tvíhliða samning áður en næstu alþingiskosningar fara fram, ef þær fara fram á reglubundnum tíma. Ég veit að ég þarf hins vegar ekki að útskýra það í löngu máli að utanrrh., sem væri orðinn ósammála markmiðinu um tvíhliða samning, gæti hæglega látið viðræðumenn í íslensku nefndinni draga málið þannig á langinn og búa til alls konar flækjur að málið verði enn opið þegar kemur að næstu kosningum.
    Virðulegi forseti. Ég taldi nauðsynlegt að reifa þessa þætti málsins í ljósi þeirrar umræðu sem hér

hefur farið fram. Ég geri mér hins vegar ljóst að það á kannski ekki beint við það frv. sem hér er til umræðu, en yfirlýsing hv. þm. Björns Bjarnasonar, þó hún kæmi fram í andsvari, var að mínum dómi það mikilvæg að það var óhjákvæmilegt annað en að vekja athygli á ýmsum þeim þáttum sem ég hef tekið hér til umfjöllunar.