Þjóðminjalög

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 12:04:41 (7459)


[12:04]
     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. við frv. til laga um breyting á þjóðminjalögum, nr. 88/1989, sbr. lög nr. 43/1991, frá meiri hluta menntmn.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem felur einkum í sér breytingar á þeim ákvæðum núgildandi þjóðminjalaga sem varða stjórn og skipulag þjóðminjavörslu. Frumvarpið er afrakstur endurskoðunar sem kveðið er á um í 54. gr. þjóðminjalaga, nr. 88/1989, að gerð skuli innan fimm ára frá gildistöku laganna. Í athugasemdum með frumvarpinu er hvatt til að fram fari á næstunni endurskoðun á öðrum þáttum laganna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Í umfjöllun nefndarinnar var rætt um skiptingu safnsins í deildir og mikilvægi þess að vel sé búið að helstu þáttum í starfsemi þess. Þau sjónarmið komu fram að æskilegt væri að skilgreina með nákvæmari hætti en gert er í gildandi lögum markmið Þjóðminjasafnsins og þjóðminjavörslu í landinu. Meiri hlutinn leggur áherslu á að tekið verði tillit til framangreindra sjónarmiða þar eð hér er einungis um að ræða fyrsta skref í heildarendurskoðun þjóðminjalaga sem mikilvægt er að haldið verði áfram hið fyrsta.
    Ég vík nú nánar að efni frv. sem miðar að því að lagfæra helstu galla sem reynslan hefur leitt í ljós á þjóðminjalögum, einkum hvað varðar stjórnun.
    Í frv. er leitast við að styrkja og einfalda yfirstjórn Þjóðminjasafnsins, byggðasafna og minjavörslu almennt. Helstu breytingar sem gert er ráð fyrir í frv. eru:
    1. Hlutverk menntmrh., þjóðminjaráðs og þjóðminjavarðar er markað með skýrari hætti en nú er gert.
    2. Fornleifanefnd fær það hlutverk að fjalla um leyfisveitingar til fornleifarannsókna, auk þess að vera ráðgjafarnefnd um fornleifavörslu, fornleifaskráningu og fornleifarannsóknir.
    3. Á minjasvæðum er hlutverk fornleifavarðar og minjavarðar sameinað.
    4. Deildaskipting safnsins er bundin í reglugerð.
    5. Sjálfstæði safnsins er aukið við starfsmannaráðningar, m.a. deildarstjóra og annarra sérfræðinga.
    Aðrar breytingar varða skipan þjóðminjaráðs og fornleifanefndar og ýmislegt fleira.
    Við umfjöllun um frv. í menntmn. kom fram hjá mörgum viðmælenda að mjög brýnt væri að þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir næðu fram að ganga á þessu þingi. Það er hins vegar fullljóst að endurskoðun laganna er hvergi nærri lokið og nægir þá að nefna þá hluta laganna sem lúta að fornminjum og húsafriðun.
    Ég ítreka þau sjónarmið menntmn., sem fram koma í nál., að heildarendurskoðun þjóðminjalaga ljúki sem fyrst.