Þjóðminjalög

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 12:20:48 (7464)


[12:20]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á því að hafa mörg orð um þetta frv. Það var rækilega rætt við 1. umr. málsins og síðan höfum við farið ágætlega yfir það þrátt fyrir að hafa ekki haft ekki mjög langan tíma í hv. menntmn.
    Það er alveg rétt sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir segir að það þarf auðvitað að endurskoða þessi lög alveg frá grunni og endurskilgreina markmið laganna. Það hefur ýmislegt komið í ljós frá því að lögin voru sett sem kallar á að það verði gert. Ég get ekki sagt að það komi mér að öllu leyti á óvart að þær hugmyndir séu uppi. Og ég tek undir þau sjónarmið með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur. Hitt er hins vegar alveg ljóst að um þær takmörkuðu breytingar sem hér er verið að gera á lögunum er mjög sterk samstaða innan safnsins og meðal þeirra sem starfa á þessu sviði. Þar er mjög sterk samstaða um þá meginbreytingu sem í frv. felst að þar er gert ráð fyrir að fella niður það sem hefur verið kallað tvíveldi þjóðminjaþáttarins og fornleifanna og reyna að fella þetta undir eitt heildarstjórnkerfi. Að vísu hefur þetta tvíveldi aldrei virkað en samt sem áður telja aðilar að það sé rétt að fella lagaákvæðin út eða breyta þeim. Sú breyting kemur skýrast fram í því að fornleifanefndin er ekki lengur stjórnnefnd heldur ráðgjafarnefnd fyrir þjóðminjavörð sérstaklega og svo þjóðminjaráðið. Þjóðminjaráðið hefur áfram tvíþætt hlutverk, sem er gallað að mínu mati, en það er samt sem áður gert ráð fyrir því áfram að það verði annars vegar rekstrarstjórn og hins vegar fagleg stjórn. Það hefur ekki verið ákveðið og ekki er hægt að ná um það samkomulagi enn þá með hvaða hætti yrði skilið á milli þátta í rekstri safnsins sem væri þó full þörf á.
    Ég tel sem sagt að með hliðsjón af þeirri sterku samstöðu sem mér sýnist að hafi skapast um nauðsyn þess að málinu verði breytt þá sé réttlætanlegt að standa að því og ég geri það þótt ég taki undir fyrirvara hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur og m.a. tek ég undir áherslur hennar á textílþáttinn alveg sérstaklega. Ég hef áhyggjur af því að þessir þættir verði vanræktir. Staðreyndin er sú að það sem tengir saman list, menningu og vinnu í landinu hefur verið erfitt að fá fólk til að setja í þjóðmenningarsögulegt samhengi. Og það snertir náttúrlega ekki síst t.d. handavinnu kvenna í gegnum aldirnar sem er kannski eina handmenntahefðin sem Íslendingar eiga þegar allt kemur til alls. Þess vegna var það dálítið skrýtið fyrir minn smekk á sinni tíð að leggja niður þær einu stofnanir sem sinntu þessari hefð pínulítið á Íslandi og hétu húsmæðraskólar. En það er fyrir utan verkefni þessa máls sem er frv. til þjóðminjalaga. Ég styð málið eins og það liggur hér fyrir þrátt fyrir að á því og í umhverfi þess séu ýmsir annmarkar.