Úrbætur í málum nýbúa

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 12:27:29 (7467)


[12:27]
     Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. menntmn. um till. til þál. um úrbætur í málum ungmenna sem flutt hafa til Íslands frá framandi málsvæðum.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Hrólf Kjartansson, deildarstjóra í menntamálaráðuneyti, Guðrúnu J. Halldórsdóttur, skólastjóra Námsflokka Reykjavíkur, og Ingibjörgu Hafstað, verkefnisstjóra hjá menntamálaráðuneyti. Þá studdist nefndin við umsagnir frá Barnaheillum, Félagi móðurmálskennara, fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra, fræðslustjóra Vesturlandsumdæmis, Heimili og skóla, Íslenskri málnefnd, Kennarafélagi Kennaraháskóla Íslands, Kennarasambandi Íslands og Námsgagnastofnun.
    Fram kom í umfjöllun um málið að þegar hefur verið unnið markvisst starf á því sviði sem tillagan varðar. Meðal annars var kynnt fyrir nefndinni skýrsla um nýbúafræðslu sem unnin var á vegum menntamálaráðuneytis. Námsgagnastofnun vinnur nú þegar að gerð námsefnis á þessu sviði og hafin er sérstök kennsla fyrir þessa nemendur.
    Nefndin telur að þingsályktunartillagan varði mikilvægt mál og sé góð viðbót og stuðningur við það öfluga starf sem þegar er hafið í menntamálaráðuneytinu á þessu sviði. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þar er í fyrsta lagi lagt til að orðalagi tillögunnar verði breytt með tilliti til þess starfs sem þegar hefur verið unnið. Loks eru lagðar til lítils háttar orðalagsbreytingar sem ekki þarfnast skýringa.
    Það er vert að geta þess í umfjöllun um þetta mál hvernig unnið hefur verið að málefnum nýbúa í menntmrn. Vorið 1992 var skipuð nefnd til að gera tillögur um íslenskukennslu fyrir nýbúa. Nefndin skilaði áliti þá um haustið og lagði fram tillögur um aðgerðir. Á árinu 1993 var ákveðið að hrinda tillögum nefndarinnar í framkvæmd og beitti ráðherra sér fyrir því að sérstök fjárveiting var veitt í þetta verkefni. Settur var starfshópur innan ráðuneytisins til að fylgja aðgerðum eftir og ráðnir verkefnastjórar. Þeir starfa á vegum ráðuneytisins en hafa aðstöðu hjá Námsflokkum Reykjavíkur.
    Skólaárið 1993--1994 var gerð tilraun með nýtt skipulag nýbúakennsku í grunnskólum í Reykjavík og á Reykjanesi. Stofnað var til sérstakra móttökubekkja þar sem áhersla er lögð á íslenskukennslu og aðlögun að skóla. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel. Móttökubekkir eru í Vesturbæjarskóla, Æfingaskólanum, Réttarholtsskóla, Hólabrekkuskóla og Holtaskóla í Keflavík. Kennurum var boðið upp á námskeið sumarið 1993 og skipulögð hafa verið námskeið fyrir kennara grunn- og framhaldsskóla nú í sumar. Mikil aðsókn er að þessum námskeiðum.
    Einnig er hafinn undirbúningur að gerð sérstakrar námsskrár fyrir íslenskukennslu þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli heldur læra hana sem annað mál og leitað hefur verið til Námsgagnastofnunar um útgáfu eða útvegun á heppilegu námsefni handa nýbúum í grunnskólum.
    Enn hefur kennsla nýbúa á framhaldsskólastigi ekki verið tekin föstum tökum. Þó skal nefnt að á yfirstandandi skólaári var gerð tilraun með nýtt fyrirkomulag við Iðnskólann í Reykjavík þar sem nemendur fengu sérstaka aðstoð í verknámi, íslenskukennslu og samfélagsgreinum.
    Sérstakur verkefnastjóri starfar einnig á vegum menntmrn. að íslenskukennslu fullorðinna nýbúa.
    Haustið 1993 og á árinu 1994 eru í fyrsta skipti sérstakar fjárveitingar á fjárlögum til nýbúakennslu. 1993 til kennslu í grunnskólum 10 millj. og fullorðinsfræðslu 5 millj. og 1994 til kennslu í grunnskólum 16 millj. og til fullorðinsfræðslu 10 millj. kr.