Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 14:36:50 (7472)


[14:36]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu á þessu máli. Ég vil þó alveg sérstaklega þakka hv. frsm. Svavari Gestssyni fyrir hans þátt því enginn hefur átt ríkari þátt í því heldur en einmitt sá hv. þm. að málið skyldi komast út úr hv. menntmn. þó með þessum hætti sé og fyrir það vil ég alveg sérstaklega þakka hv. þm. Svavari Gestssyni.
    Því er ekki að neita að það hefur staðið töluverð barátta um að fá þetta mál afgreitt frá nefnd. Vissulega er það ekki óskaniðurstaða að málum sé vísað til ríkisstjórnar. Það vita velflestir hvað það þýðir en það hefur verið einhver óskiljanlegur tappi í nefndinni fram til þessa. Ég skal ekki segja af hverju það hefur verið en þetta mál hafði þegar það var fyrst flutt með sér á þriðja tug flm. og alveg augljósan meiri hluta þingsins en hlaut engu að síður ekki náð fyrir augum nefndarinnar þrátt fyrir ötula baráttu frsm. í því máli.
    Þetta hefur orðið niðurstaðan og við hana sætti ég mig fyllilega. Það vill svo til að ég er formaður íþróttanefndar ríkisins og á hennar borði liggja nú drög að frv. um ný íþróttalög og ég skil þessa afgreiðslu hv. menntmn. á þann veg að það sé vilji nefndarinnar að þessi sjóður verði tekinn inn í íþróttalög og mun beita mér fyrir því að svo geti orðið.
    Virðulegur forseti. Ég þarf ekkert að fjölyrða meira um þetta. Ég mun halda áfram að vinna að þessu máli á nýjum vettvangi.