Söfnunarkassar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:05:25 (7477)


[15:05]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég var erlendis þegar talað var fyrir þessu máli sem hér er á dagskrá og hafði þess vegna ekki tækifæri til að lýsa skoðun minni á því þá, en ég vil aðeins gera grein fyrir því að ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv., svo og því frv. sem mælt var fyrir hér áðan um Happdrætti Háskóla Íslands.
    Það er ósæmilegt með öllu að Alþingi Íslendinga skuli vera að lögleiða spilavíti á öðru hverju götuhorni. Við vitum öll hver áhrif þetta hefur á líf fólksins í landinu, ekki síst þegar ástandið í þjóðfélaginu er eins og það er nú. Og það er satt að segja ekki Háskóla Íslands til sóma né heldur hinu háa Alþingi að það skuli vera gripið til þess háttar ráða sem spilakassar eru til þess að fjármagna þessa æðstu menntastofnun þjóðarinnar.

    Herra forseti. Ég vil einnig gera athugasemd við nafnið á þessu frv. sem er frumvarp til laga um söfnunarkassa. Það er alrangt, þetta eru engir söfnunarkassar. Þetta eru spilakassar og það er allt annað. Söfnunarkassar eru kassar sem fólk leggur peninga í af fúsum og frjálsum vilja en ætlast ekki til neins í staðinn, en hér er um að ræða spilamennsku.
    Annað er það sem mér þykir áfátt í þessu frv. en það er að ég er ekki viss um að eftirlit sé nægilegt með því fjármagni sem í þessa kassa kemur. Nú má vera að reglugerð sú sem væntanlega verður samin tryggi það sæmilega, en mér hefur þótt vanta mikið á að það sé lýðum ljóst hvað verður um allt það feiknalega fé sem lagt er í happdrætti af öllu tagi í þessu landi. Nægir að nefna lottóið sem skilar hundruðum milljóna til ýmissa stofnana án þess að það virðist koma skapaðan hlut til góða við gerð fjárlaga. Íþróttahreyfingin þarf ekki minna fé eftir að lottópeningar fóru að streyma inn og ég sé ekki að þeir liðir hafi neitt lækkað á fjárlögum. Og allt ber þetta að sama brunni.
    Varðandi frv. sem hér er verið að ræða þykir mér kannski enn þá snautlegra að samtök eins og SÁÁ skuli eiga hér hlut að máli. Þetta eru samtök sem eru að reyna að lækna fólk af stjórnlausri fíkn í eiturlyf. Spilafíkn er engu betri og svo einkennilegt sem það nú er, og þó sennilega ekki ef sálfræðilegra skýringa væri leitað, er það oft svo að ekki síst þeir sem hafa komið stjórn á drykkjuskap sinn eru einmitt þeir sem ánetjast fíkn sem þessari, sem getur orðið svo alvarleg að menn missi allt sitt viðurværi í þessa hít.
    Ég mun því, herra forseti, greiða atkvæði gegn þessum tveimur frumvörpum og mun beita mér fyrir því á komandi hausti að þetta verði bannað hér í landi, svo einfalt er það. Spilakassar eiga ekki að þekkjast. Og það er tómt mál að vera að setja vandræðalegar brtt. fram um að ekki megi hafa spilakassa á vínveitingastöðum, það megi ekki hleypa börnum undir ákveðnum aldri að spilakössum og svo sjáum við á hverju götuhorni að bæði börn og dauðadrukkið fólk eru að spila í þessum kössum. Þannig að þetta er hinn mesti ósiður og það er skylda hins háa Alþingis að beita sér fyrir því að allt þetta verði bannað.