Söfnunarkassar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:23:10 (7481)


[15:23]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins vegna þess sem fram kom í máli frsm. nefndarinnar að það væri mat manna að erfitt væri að breyta því sem byggði á samkomulagi aðila. Það er auðvitað þannig að Alþingi ákveður það sjálft hverju það getur breytt og hvaða lög það getur sett. Þingmaðurinn getur ekki leyft sér að segja það hér úr ræðustól að samkomulag aðila utan þings bindi menn í þingsölum um mögulega lagasetningu. Ég er því fullkomlega ósammála hv. 6. þm. Reykv. um að við séum njörvaðir niður í umgjörð málsins út frá því samkomulagi sem aðilar hafa gert. Við tökum auðvitað tillit til þess en að sjálfsögðu eiga þingmenn að leggja sjálfstætt mat á málið og gera þær breytingar á því sem þeir telja skynsamlegar og réttar en ekki þannig að menn séu bundnir af samkomulaginu og geti ekki gert aðrar breytingar en þar er að finna. Þetta vildi ég leggja áherslu á þannig að menn væru ekki í vafa um að það er Alþingi sem setur lögin en ekki félagasamtök úti í bæ.