Happdrætti Háskóla Íslands

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:25:31 (7482)


[15:25]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1186 frá allshn. við frv. til laga um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands nr. 13/1973.
    Nefndin hefur fjallað um málið samhliða umfjöllun um þau tvö stjfrv. sem hér voru til umfjöllunar áðan, þ.e. frv. til laga um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, 445. mál, og frv. til laga um söfnunarkassa, 446. mál.
    Frv. gerir ráð fyrir að ákvæði um að Happdrætti Háskóla Íslands greiði 20% af arði í einkaleyfisgjald falli niður en fjármunir þessir hafa runnið til Byggingarsjóðs rannsókna í þágu atvinnuveganna.
    Í umsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram að framlag í fjárlögum á árinu 1994 sé 40 millj. kr. Falli þetta ákvæði brott hafi það þau áhrif að háskólinn hafi meira fé til ráðstöfunar til viðhalds og stofnkostnaðar sem nemi þessum 20% og að framlag til byggingarsjóðsins falli niður. Muni því kostnaðarauki ríkissjóðs af frv. velta á hvort veitt verði framlag á fjárlögum til byggingarsjóðsins í stað happdrættisfjárins og hve hátt það framlag yrði.
    Með tilliti til framansagðs er það mat nefndarinnar að mál þetta þarfnist heildstæðrar endurskoðunar, m.a. með tilliti til ákvarðanatöku um fjárveitingar til Byggingarsjóðs rannsókna í þágu atvinnuveganna og leggur nefndin því til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Jón Helgason og Ólafur Þ. Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Undir nál. rita nöfn sín Sólveig Pétursdóttir, Gísli S. Einarsson, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingi Björn Albertsson, Kristinn H. Gunnarsson og Tómas Ingi Olrich.