Þjóðfáni Íslendinga

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:29:25 (7484)


[15:29]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1189 frá allshn. um till. til þál. um endurskoðun laga nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga.
    Nefndin hefur fjallað um tillöguna. Bárust henni umsagnir frá Útflutningsráði Íslands, Verslunarráði Íslands, Ungmennafélagi Íslands, Samtökum iðnaðarins, ferðamálaráði og Íþróttasambandi Íslands.
    Tillagan felur í sér að forsætisráðherra verði falið að skipa nefnd fimm manna til að endurskoða lög um þjóðfána Íslendinga, einkum 12. gr., en þar er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að nota þjóðfánann á umbúðir eða í auglýsingar á vörum.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar og tekur undir þau sjónarmið, er fram koma í greinargerð hennar, að gagnlegt geti verið að vörur í markaðssetningu erlendis beri glögg einkenni Íslands. Jafnframt vill nefndin taka undir þær ábendingar, sem fram komu í umsögnum, að notkun þjóðfánans í þessu skyni er vandmeðfarin.
    Ólafur Þ. Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Aðrir nefndarmenn rita nöfn sín undir álitið.