Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:31:00 (7485)


[15:31]
     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. á þskj. 1187 um till. til þál. um eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk um það umsagnir á 116. og 117. löggjafarþingi frá Vélstjórafélagi Íslands, Stýrimannaskóla Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Hafnasambandi sveitarfélaga, Landhelgisgæslunni, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, umhverfisráðuneytinu, Hollustuvernd ríkisins, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Slysavarnafélagi Íslands, Náttúruverndarráði og Siglingamálastofnun ríkisins.
    Tillagan felur í sér að dómsmálaráðherra verði falið að láta framkvæma athugun á því hve mörg skip og loftför Landhelgisgæslan þurfi til að halda uppi fullu eftirliti innan landhelgi og efnahagslögsögu Íslands.
    Í umfjöllun nefndarinnar um málið komu fram þær upplýsingar að í undirbúningi er að koma á fót nefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins sem hafi það verkefni að vinna að úttekt á skipastól Landhelgisgæslunnar og þörf á endurnýjun. Með tilliti til þeirra upplýsinga og þess að eðlilegt þykir að fyrrgreind nefnd taki tillögu þessa til athugunar leggur allshn. til að henni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Kristinn H. Gunnarsson og Ólafur Þ. Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Aðrir nefndarmenn rita nöfn sín undir álitið.