Umboðsmaður barna

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 15:45:20 (7489)


[15:45]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Það er aðallega tvennt sem veldur því að ég tek til máls hér. Annars vegar þarf ég að mæla fyrir brtt. á þskj. 1168 og hitt er að þakka hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur fyrir hennar ötulu baráttu í þessu máli. Hún hefur barist fyrir frv. til laga um umboðsmann barna í --- ég veit ekki lengur hve mörg ár en þau eru orðin allmörg. ( GHelg: Tíu.) Tíu ár og loksins er hv. þm. að uppskera. Þess vegna sakna ég þess verulega að í kafla á bls. 3 í frv. sem heitir ,,Fyrri lagafrumvörp um umboðsmann barna`` skuli ekki vera minnst einu orði á hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur sem á þó allan heiður skilinn af því að þetta mál er komið svo langt á veg sem raun ber vitni. Ég harma að svo er ekki. Allur þessi kafli er um það hvað Alþfl. hefur staðið sig vel í þessu máli. Það er bara rangt að mínu viti og þetta ber að leiðrétta og þess vegna vil ég fá það inn í þingtíðindin að ef það er einhverjum einum aðila að þakka að þetta mál er hér á lokastigi þá er það hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að þakka.
    Um þetta mál fór fram allnokkur umræða í hv. nefnd og menn skiptust nokkuð á skoðunum og fengu umsagnir frá fjölmörgum aðilum. Það verður að segjast eins og er að það taka allir ákaflega vel í hugmyndina og prinsippið sem þarna er boðað og það gerir sá sem hér stendur auðvitað líka og vill þá geta þess jafnframt að einhver smámisskilningur varð við undirritun nefndarálits. Ég ætlaði mér ekki að vera með fyrirvara en það er enginn stór skaði skeður. Það má vel vera að sá misskilningur sé mér að kenna.
    Það var nokkuð rætt um heitið á frv., umboðsmaður barna, og við fengum ábendingar um að hugsanlega væri skynsamlegra að notast við annað heiti og sérstaklega kom þá upp í umræðuna heitið ,,Málsvari barna og ungmenna``. Ég verð að segja að það svona féll mér betur í geð og ég hafði það sterklega á tilfinninguni lengi vel og reyndar enn þá að það hafi verið meirihlutavilji fyrir því innan nefndarinnar að notast við það nafn, enda kom það fram í nefndarstörfunum að menn voru töluvert að ruglast á umboðsmanni barna og umboðsmanni Alþingis og höfðu áhyggjur af því að slíkt hið sama mundi ske úti í þjóðfélaginu. Enda held ég að menn hafi orðið varir við það nú þegar að hlutverk umboðsmanns barna er svolítið misskilið úti í þjóðfélaginu. Þess vegna taldi ég rétt og tel enn og mundi fylgja og styðja slíka brtt., ef fram kæmi, að breyta heitinu í frv. til laga um málsvara barna og ungmenna.
    Eins og ég gat um rétt áðan, þá ætla ég að mæla fyrir brtt. á þskj. 1168. Það er brtt. flutt af mér ásamt hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni. Við óskum eftir breytingu á 2. gr. frv. þar sem segir í 2. málslið, með leyfi forseta:
    ,,Umboðsmaður barna skal hafa lokið háskólaprófi og vera eldri en 30 ára. Hafi umboðsmaður barna ekki lokið embættisprófi í lögum skal lögfræðingur starfa við embættið.``
    Þarna erum við með brtt. um að fyrri málsl. 2. mgr. falli brott þannig setningin ,,umboðsmaður barna skal hafa lokið háskólaprófi og vera eldri en 30 ára``, falli brott og þá standi setningin þannig: ,,Hafi umboðsmaður barna ekki lokið embættisprófi í lögum skal lögfræðingur starfa við embættið.``
    Við teljum að sá þröskuldur sem settur er með því að skilyrða fólk til að hafa háskólapróf upp á vasann sé óeðlilegur. Það geti vel komið margir aðrir aðilar til greina í slíkt starf án þess að hafa háskólapróf, enda geta menn haft háskólapróf og alls kyns gráður sem engan veginn henta í þetta tiltekna starf. Við teljum því að þarna geti menn hugsanlega verið að útiloka hæft fólk sem hafi góðan skilning á málefnum barna og góða innsýn inn í barnaheim. Við teljum því að slíkur þröskuldur eigi ekki að vera til staðar.
    Ég get nefnt sem dæmi varðandi þennan þröskuld aðila sem hefur verið formaður í stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra og öryrkja í fjögur ár, síðan verið alþingismaður í 16 ár og ráðherra í þremur ríkisstjórnum og varaformaður Alþfl. og fagráðherra þessa máls um umboðsmanns barna. Þessi aðili mundi ekki uppfylla skilyrðin. Sjálfur hæstv. félmrh. hefur ekki háskólapróf. Félmrh. væri óhæfur til að gegna embætti umboðsmanns barna. Ekki efast ég um það eina mínútu að hún er fyllilega hæf í starfið, en vegna slíkra þröskulda eins og eru í frv. þá væri hún dæmd óhæf og úr leik.
    Sama máli gegnir um aldursmarkið, 30 ár. Það teljum við ekki heldur vera við hæfi og má segja að grunntónninn sé sá að við hreinlega treystum þeim aðilum sem koma til með að ráða í embætti umboðsmanns barna, að þar verði að sjálfsögðu ráðinn hæfasti aðilinn í starfið og það eigi ekki að setja upp slíka þröskulda sem eru annaðhvort prófskírteini upp á vasann eða aldursmark.
    Við leggjum þess vegna fram brtt. við 2. gr. um að setningin um háskólaprófið og aldurstakmarkið falli brott.
    Aðeins út af því má kannski segja að það sé að vissu leyti komið til móts við þessa kröfu um háskólapróf því að setningin sem eftir stendur gerir ráð fyrir því að það skuli starfa lögfræðingur við embættið þannig að það er fyrir því séð.
    Í öðru lagi leggjum við fram brtt. við að síðari málsl. 3. mgr. 2. gr. falli brott. Hann hljóðar svo:
    ,,Umboðsmanni barna er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf.``
    Þetta held ég að hreinlega gangi ekki upp. Ég held að ef við litum yfir þingsalinn og athugum t.d. þá 63 þingmenn sem sitja á þingi hversu margir kæmust af ef þeir mættu ekki hafa önnur launuð störf, ef þeim væri meinað að setjast í nefndir, ráð eða stjórnir. Ég hygg að það sé óvíða í þessu þjóðfélagi í dag að nokkur aðili lifi á einum launum og ég sé það á þessu frv. að það er ekki gert ráð fyrir slíkum launakjörum í þessu embætti að það sé eitthvað til að hrópa húrra yfir.

    Ég get vel séð fyrir mér að umboðsmaður barna yrði skipaður í einhverja nefnd um málefni barna t.d. Þar sætu menn úr embættismannakerfinu, alþingismenn og einhverjir fleiri. Allir yrðu launaðir nema þessi eini maður, umboðsmaður barna. Það gengur faktískt það langt að umboðsmaður barna mætti ekki einu sinni bera út blöðin. Þessi setning er algerlega óviðunandi og þess vegna leggjum við fram brtt. við hana.
    Virðulegi forseti. Aðeins út af menntunarskilyrðunum þá er athyglisvert að láta það koma fram að fulltrúi menntmrn. tók undir þau sjónarmið að menntunarskilyrðin væru ekki þörf. En ástæðan fyrir því að svona lagabálkur er lagður fram er kannski meiri spurning. Ég hef haft þá skoðun að það sé óþarfi að stofna slíkt embætti. Ég ætla hins vegar engan veginn að leggja stein í götu þess því að auðvitað viljum vil öll veg barna sem mestan og bestan. En ástæðan er kannski fyrst og fremst sú að löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið og þær stofnanir sem eiga að hugsa um hag barna virðast hafa brugðist og við erum að setja upp hérna einhvern hrísvönd á þessa aðila með því að fara út í þetta embætti.
    En gott og vel, það er að verða að veruleika. Ég styð það heils hugar í prinsippinu, en legg engu að síður fram þessa brtt. sem ég vona að menn taki undir með okkur hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni.