Stjórn fiskveiða

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 17:48:22 (7517)


[17:48]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um þau ákvæði sem nú á að lögfesta um veiðar krókaleyfisbáta. Ég get tekið undir það að við hljótum áfram að taka nokkurn hluta okkar þorskafla á handfæri og línu. Ég tel hins vegar algjörlega óásættanlegt að lögfesta að þann afla, 22 þús. tonn, megi ekki taka á báta stærri en 6 tonn eins og hér er verið að gera tillögu um. Þetta er gert á sama tíma og stærri bátar, sem væru í miklu betri færum til þess að taka þennan afla, liggja nánast kvótalausir uppi á fjörukambi.
    Þá vil ég minna á að þessi ákvörðun þýðir að við úthlutun á þorskkvóta fyrir næsta fiskveiðiár verður um að ræða um 8% skerðingu aflamarks skipa og báta, þar á meðal smábáta sem eru á aflamarki að óbreyttum heildarafla. Ég get þessa hér því að það þýðir ekkert fyrir þingmenn eða aðra að koma af fjöllum í haust þegar sú ákvörðun kemur fram og ég greiði því ekki atkvæði.