Stjórn fiskveiða

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 18:06:20 (7524)


[18:06]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Með þessari tillögu eru þingmenn Alþb. að leggja til að ekki verði leyft að flytja til landsins fleiri fullvinnsluskip til veiða innan landhelginnar um eins árs skeið, en sá tími verði notaður til að móta stefnu hvað varðar fullvinnslu afla sem taki mið af heildarhagsmunum þjóðarinnar. Krafan um að stjórnvöld taki upp skynsamlega og ábyrga stefnu í þessu efni er nú reist af ýmsum aðilum í þjóðfélaginu og þar gengur verkalýðshreyfingin í fylkingarbrjósti. Það vekur mikla athygli, mína a.m.k., að menn skuli greiða atkvæði gegn þessari tillögu hér á hv. Alþingi.