Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 18:42:37 (7537)


[18:42]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram við þessa skýringu sem við vorum hér að enda við að hlusta á þá var þetta frv. stórgallað þegar það kom fram. Í meðförum nefndarinnar tókst að lagfæra ýmsa ágalla frv. Ég tel hins vegar að hér sé verið að lappa upp á frv. sem hefði þurft að endursemja. Tvö atriði tel ég vega þyngst til rökstuðnings fyrir því hversu hér er um lélega lagasmíð að ræða. Í fyrsta lagi er ráðherra á hverjum tíma fært alveg ótrúlega mikið reglugerðarvald. Hann getur nánast stjórnað þessum málum með tilskipunum. Nokkuð hefur þó verið dregið úr því í meðförum nefndarinnar en hvergi nærri nóg. Í öðru lagi tel ég að friðunarsjónarmiða gæti of sterkt. Ég er ekki talsmaður þess að þau villt dýr, sem maðurinn hefur um aldir litið á sem villidýr hér á landi og hafa hér oft valdið óbætanlegu tjóni, t.d. refurinn, séu alfriðuð. Síðan sé í lögum þessum verið að tiltaka einhverjar undanþágur. Ég mun styðja nokkrar brtt. sem ég tel til bóta, en að öðru leyti sitja hjá eða greiða atkvæði gegn afgreiðslu einstakra greina. Ég mun síðan gera nánari grein fyrir afstöðu minni við 3. umr. þessa frv. þar sem ég vildi fyrst láta á það reyna hvernig frv. liti út eftir 2. umr. og atkvæðagreiðslu.