Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 18:52:23 (7544)


[18:52]
     Árni Johnsen (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Það er mikill kerfisleiði í þessu frv., þ.e. mörg ákvæði sem gefa færi á aðgerðum og yfirbyggingum sem engin ástæða er til. Ég tel að það hefði þurft að leggja miklu meiri vinnu í það að fínpússa þetta frv. Það er gefið færi á því að vald ráðherra sé mjög mikið og einskorðað án þess að aðrir aðilar hafi annað en umsagnarrétt eða tillögurétt og mætti benda á margt sem er neikvætt í frv. þó að margt sé auðvitað brúklegt líka. Ég nefni eitt dæmi. Þegar hv. formaður samgn. var spurður um það hver væri ástæðan fyrir því að stytta ætti veiðitíma á langvíu á vorin . . .  ( SJS: Hvað kemur þetta atkvæðagreiðslu við?)
    ( Forseti (SalÞ) : Aðeins að tala um atkvæðagreiðslu.)
    Já, þetta tengist atkvæðagreiðslunni, hvers vegna mín afstaða liggur fyrir eins og koma mun í ljós. --- Þá var sagt að langvían þyrfti tíma til að undirbúa hreiðurgerð sína á vorin, þá var bent á að langvían verpti á bjargsyllur, svokölluð bæli, og undirbyggi ekki hreiðurgerð sína. Því var samt haldið fram fast og ákveðið. Þar sem það stendur ekki í frv. að langvíunni sé ætlað að skúra og ryksuga á vorin, þá mun ég sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þetta frv.