Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 18:54:37 (7545)


[18:54]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að veita mér leyfi til þess að koma hér aftur. Ég harma það að starfandi umhvrh. skyldi ekki treysta sér til að gefa út þá yfirlýsingu að embætti veiðistjóra yrði ekki flutt nema með samþykki Alþingis. Ég vil t.d. benda á það hve lítilfjörleg þessi ósk er. Væntanlega er einhver kostnaður við flutning embættisins. Sá kostnaður verður ekki inntur af hendi nema með fjárlögum fyrir árið 1995 vegna þess að áform eru ekki uppi um að flytja embættið á þessu ári. Það er þess vegna satt að segja alveg ótrúlegur einstrengingsháttur af hálfu umhvrn. að vera ekki reiðubúið að gefa þessa yfirlýsingu. Það eru margir nefndarmenn --- ég bið hæstv. umhvrh. að hlýða á --- það eru margir nefndarmenn sem settu fram þessa ósk, menn sem hafa unnið að því þrátt fyrir mikla gagnrýni einstakra þingmanna að aðstoða hæstv. umhvrh. við að koma þessu máli áfram sem er satt að segja eina málið sem hæstv. umhvrh. er með hér í þinginu og gæti hugsanlega orðið afgreitt fyrir vorið. Og ég bið starfandi umhvrh. að endurskoða þessa afstöðu sína ef ætlunin er að afgreiða þetta mál hér, t.d. ljúka 3. umr. og atkvæðagreiðslu um málið áður en þingið fer heim. (Gripið fram í.) Ég skil nú ekki þessa athugasemd hæstv. landbrh. Þetta mál hefur verið mikið deilumál hér í þinginu. Það er alveg ljóst að það kom illa undirbúið í þingið þannig að það hefur þurft að gera mikla breytingar og þær breytingar hefðu ekki verið gerðar og frv. væri ekki komið svona langt áleiðis ef menn hefðu ekki í umhvn., þvert á skiptingu þingmanna í stjórn og stjórnarandstöðu, tekið höndum saman um að reyna að aðstoða umhvrn. við að koma þessu máli áfram. Þess vegna frábið ég mér athugasemdir einstakra ráðherra í þeim dúr sem hæstv. landbrh. var hér með.
    Það er eingöngu af góðum hug til umhvrn. sem þessi ósk er sett fram vegna þess að við óttumst að liggi þessi yfirlýsing ekki fyrir kunni það að tefja fyrir endanlegri afgreiðslu málsins hér við 3. umr. og ég held að erfiðleikarnir við að byrja atkvæðagreiðsluna hér við 2. umr. og yfirlýsingar sumra stjórnarþingmanna nú þegar í málinu ættu að gefa starfandi umhvrh. til kynna að það er ekki í höfn að koma málinu til lokaafgreiðslu.