Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 18:57:33 (7546)


[18:57]

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Okkur sem erum andvíg þeim miðstýringartilhneigingum sem fram koma í þessu frv. er mikill vandi á höndum því að í frv. eru vissulega ýmis náttúruverndarsjónarmið sem vert er að taka undir. En miðstýringartilhneigingin er alveg gríðarleg og henni vil ég mótmæla hér. Það mun verða erfitt að koma þessum skilaboðum á framfæri í atkvæðagreiðslu, en verður að sjálfsögðu reynt eftir bestu getu. En ég vil koma þessari almennu athugasemd á framfæri hér svo að enginn velkist í vafa um það að ég er sátt við mjög margt í frv. og vil veg þess sem mestan, en mér finnst þessi miðstýringartilhneiging alveg gríðarlega slæm. Ég vil einnig harma það að hæstv. starfandi umhvrh. treystir sér ekki til að gefa þá yfirlýsingu sem hér var eftir leitað varðandi veiðistjóra og flutning þess embættis. Þetta var mjög lítil bón og ætti að vera auðvelt að verða við henni. En ef vilji er ekki fyrir hendi þá er að sjálfsögðu mjög leitt til þess að vita. Ég mun þurfa að skoða hug minn varðandi þetta mál sem ég annars styð efnislega að mjög mörgu leyti og vildi gjarnan sjá fara hér í gegn.