Störf efh.- og viðskn. og allshn., verkfall meinatækna

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:08:52 (7555)


[09:08]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Það má vel vera að hæstv. ríkisstjórn hafi reynt að stöðva að málið fari út úr nefndinni. Það eru mér þá tíðindi ef svo er. Nefndin er með þetta á sínu forræði. Málið er hjá nefndinni. Og hún getur skilað því inn til þingsins og svo greiða bara hv. þm. atkvæði, já eða nei, um málið. Það er kjarni málsins og það er það sem ég bið um. Ég vona bara að þetta verði gert. Hv. formaður efh.- og viðskn. er nú nýorðinn formaður Framsfl. Meðal flm. er hv. fyrrv. formaður Framsfl. og enn fremur formaður þingflokks svo að það er mikið af sómamönnum sem flytja þetta ágæta frv. og það er ekkert að vanbúnaði hjá hv. nefnd að skila málinu til þingsins og þarf ekkert að spyrja ríkisstjórn í þeim efnum. Það kemur svo í ljós í atkvæðagreiðslu hvort um verður að ræða meiri hluta eða minni hluta fyrir málinu.