Störf efh.- og viðskn. og allshn., verkfall meinatækna

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:10:16 (7556)


[09:10]
     Kristín Ástgeirsdóttir :

    Virðulegi forseti. Að öllum líkindum lýkur þingi nú í dag en þegar þingið fer heim þá gerist það á sama tíma og mjög alvarlegt ástand ríkir úti í okkar þjóðfélagi og þá er ég að vísa til þess að í tæpar fimm vikur hafa meinatæknar verið í verkfalli sem leitt hefur af sér svo alvarlegt ástand á stærstu sjúkrahúsum landsins að við svo búið getur ekki staðið. Mér hafa borist fregnir af svo fárveiku fólki að það er ekki hægt að horfa upp á þetta lengur.
    Mér var sagt af hjartveikri konu sem þarf að komast í aðgerð en listinn er svo langur sem á undan henni er að hún fær enga þjónustu. Mér var líka sagt af konu sem hefur greinst með ber í brjósti og það vex dag frá degi en hún fær enga þjónustu. Þannig eru dæmin ótal, ótal mörg. Þetta getur ekki gengið svona lengur. Það hefur ekki verið haldinn samningafundur milli samninganefndar ríkisins og meinatækna síðan sl. föstudag, þ.e. fyrir meira en viku síðan. Þetta getur ekki gengið svona lengur. Ég er ekki að krefjast þess að sett verði lög á meinatækna og reyndar óttast ég að ríkisstjórnin muni grípa til þess ráðs þegar þingið verður farið heim en það hlýtur að vera krafa Alþingis að ráðherrar ríkisstjórnarinnar grípi inn í og ýti á eftir samninganefnd ríkisins og finni leiðir til þess að greiða fyrir lausn þessarar deilu. Þetta getur ekki gengið svona lengur og við getum ekki farið heim nema við höfum yfirlýsingar ráðherra um það hvað þeir ætla að gera í þessu máli. Því miður er aðeins hæstv. menntmrh. staddur hér en við verðum að taka þetta mál upp aftur í dag þegar fleiri ráðherrar verða komnir hingað. Þetta getur ekki gengið svona lengur.