Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:41:06 (7570)


[09:41]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hef alveg sparað mér það að taka til máls um þetta frv. meðan það hefur verið til 1. og 2. umr. enda í þriðja skiptið sem verið er að leggja það inn í þingið og ég hafði rætt ágalla þess frv. á fyrri þingum. Ég tel ástæðu til þess að þakka hv. umhvn. fyrir mikla vinnu við það að reyna að lappa upp á stærstu ágallana í þessu frv. en ég tel þó að þeir séu mjög margir eftir.
    Það kom greinilega í ljós í gær við atkvæðagreiðslu um þetta frv. að þær brtt. sem fram voru komnar og síðan aftur dregnar til baka voru orðnar þrefalt fleiri en upphaflegar greinar frv. eru.
    Nú hefur hv. varaformaður nefndarinnar kynnt brtt. við 3. umr. Vissulega get ég fallist á að enn

sé verið að reyna að lagfæra þetta stórgallaða frv. en ég fæ satt að segja ekki skilið það að hv. sómakærir alþm. skuli ætla að láta þetta frv. fara hér í gegn. Ég tel að enn séu þeir stóru gallar, sem ágreiningurinn hefur verið um, þ.e. að sú mikla miðstýring sem hér er verið að koma á með valdi ráðherra til reglugerðarsetningar sé algjörlega óviðunandi. Þá tel ég enn að ýmsir þeir ágallar sem bent hefur verið á í þessu frv. í umræðu um málið séu enn fyrir hendi og það eru meira að segja ekkert stórir gallar en samt gallar sem ekki ættu að sjást í frv. sem við látum fara hér í gegn. Ég tel t.d. að í V. kafla frv., 11. gr., þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Ábúendur hlunnindajarða og aðrir rétthafar hefðbundinna hlunninda skulu fá sérstök veiðikort, hlunnindakort, til staðfestu því að þeir hafi rétt til að nýta hlunnindi á jörðinni, . . .  ``
    Þessi hlunnindi hafa menn haft um aldir og þetta eru ábúendur og eigendur jarðanna sem hafa þessi hlunnindi. Nú eiga þeir að fara að fá hlunnindakort til þess að mega nýta hlunnindi á sínum eigin jörðum. Hverjum er betur treystandi en eigendum jarðanna til þess að gera þetta með bæði sjálfbæra þróun og umhverfisvernd í huga? Ég mótmæli því að það sé lýst yfir slíku vantrausti á bændur og eigendur bújarða.
    Ég get út af fyrir sig fallist á það að veiðikort séu tekin upp til handa þeim veiðimönnum sem stunda að öðru leyti veiðar á villtum dýrum. Í upphafi leist mér ekkert á þetta þegar var verið að ræða þetta fyrst en ég tel þó að það sé ákveðin bremsa á það að hver og einn geti farið um og veitt án þess að eitthvert eftirlit eða einhver fylgist með því. Við vitum það öll sem hér erum að það hefur færst í vöxt að menn fari um landið á vélsleðum eða stórum jeppum og eyðileggi þar bæði umhverfi og líf. Ég vil stemma stigu við slíku og ef veiðikort eru liður í því að stemma stigu við því að slíkri ránshendi sé farið um landið þá er ég sammála því að þessi veiðikort séu tekin upp. En mér finnst ekki að eigendur og ábúendur jarða og rétthafar hefðbundinna hlunninda eigi að þurfa að vera að fá sér slík kort.
    Þá vil ég einnig lýsa efasemdum um 12. gr. jafnvel þó að hér sé komin samkvæmt brtt. á þskj. 1267 algjörlega ný grein, þ.e. þessi grein sem við sjáum í frv. eftir 2. umr. er ekki sú sama og á að vera samkvæmt brtt. En mér sýnist ekki að brtt. gangi nægilega langt og t.d. það að óheimilt sé að eyðileggja greni. Hvers vegna í ósköpunum? Ég bara spyr. Hvers vegna á að vera óheimilt að eyðileggja greni? Ég fæ ekki séð það. Ég hef farið um þar sem ummerki sjást eftir refi og þar sem ummerki sjást eftir greni. Ég tel að það sé ekki nokkur ástæða að vera að vernda slík skemmdarverk sem refurinn hefur oft og tíðum unnið í kringum sín greni. Þannig að upphafið á þessari grein er enn það sama þó svo að hér sé verið að leggja til breytingar.
    Ég hef ekki á þessu stigi frekari athugasemdir við þetta. Ég er búin að lýsa því að meginhugsunin í þessu, bæði með miðstýringu, með reglugerðarákvæðum ráðherra og sú hugsun að friða öll dýr, jafnvel þó þau séu réttdræp villidýr, þeirri hugsun er ég ósammála en ég tel þrátt fyrir það að ég sé ekki neitt minni umhverfisverndarsinni en hver annar.