Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:48:32 (7571)


[09:48]
     Frsm. minni hluta umhvn. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af þeim brtt. sem hafa verið lagðar fram þá vil ég taka það fram að ég stend ekki að þeim. Þær í sjálfu sér eru heldur til bóta ef litið er á málið í þeim búningi sem það er. Þær snerta hins vegar ekki þá grundvallargagnrýni sem ég hef komið fram með á frv. sem felst í því að þar sé farin röng leið að því að ná ákveðnum settum markmiðum sem ég í sjálfu sér er ekkert ósáttur við. Ég tel að það hefði átt að fara þá leið að skilgreina nýtingarréttinn sem grundvallarreglu og kveða síðan á í lögunum um friðun einstakra tegunda.
    Ég heyrði það við atkvæðagreiðslu í gær, virðulegi forseti, að a.m.k. einn þingmaður í þingsalnum velti vöngum yfir því hvers vegna nál. þess sem hér stendur hefði ekki fylgt brtt. og er í sjálfu sér ekkert við það að athuga að menn velti því fyrir sér. Ég get gefið skýringu á því. Þegar vinna hófst við þetta frv. í hv. umhvn. þá lét ég koma mjög fljótlega það sjónarmið mitt fram að ég hefði efasemdir um það að sú aðferð sem í frv. felst væri rétt og það urðu nokkrar athyglisverðar umræður í nefndinni um þessi atriði. Ég lýsti því þá yfir að ég væri fyrir mína parta alveg reiðubúinn til þess að ganga í það að breyta frv. Það hefði þá þurft að snúa því raunar við. En annað eins hefur gerst því það vill svo til að einmitt í þessari hv. nefnd þingsins, umhvn., hafa frv. umhvrh. verið tekin til gagngerðrar endurskoðunar og sá sem hér stendur hefur tekið þátt í því starfi og ekki látið sitt eftir liggja eins og ég hygg að hv. nefndarmenn geti borið um. Hins vegar var það svo að það var ekki vilji til þess í nefndinni að ganga í þetta verk með þeim hætti og ég virði það fullkomlega en það hefði hins vegar verið afar tæknilega flókið vandamál fyrir þann sem hér stendur að ganga í það einn og óstuddur að snúa frv. við á þó þetta stuttum tíma en með góðri aðstoð annarra nefndarmanna hefði það verið sjálfsagður hlutur að gera.
    Ég vil því taka það fram að þó að þessar breytingar sem hér koma fram séu heldur til bóta þá breyta þær ekki þessari grundvallaraðferð sem í frv. er farin en við þá aðferð er ég ósáttur og mun því ekki greiða þessu frv. í þeim búningi sem það er nú atkvæði mitt að sinni.