Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:51:48 (7572)


[09:51]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hlýddi á mál hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómasar Inga Olrich, og ég er þeirrar skoðunar að það sé sú grunnhugsun sem flestir Íslendingar hafa í þessu máli að nytjarnar eigi að vera sá grundvöllur sem menn vinna út frá en svo sé farið yfir einstakar tegundir. Þetta er nú ekki sá fjöldi að það sé ekki gjörlegt og settar reglur sem snerta þessar tegundir. En það sem undrar mig með afstöðu hv. þm. er það að þegar það gerist að frv. koma í því formi að þau eru ekki ásættanleg nema gjörbylta þeim vegna þess að grunnuppsetningin er röng þá er það rétt að það er ekkert auðvelt verk að semja brtt. við slíkt frv., en þá er líka reglan að vísa þeim til ríkisstjórnarinnar aftur. Það er það sem Alþingi Íslendinga stendur frammi fyrir í dag. Ætla menn að keyra þetta áfram? Brtt. sem koma fram eru til bóta. Ég fullyrði það. Það er ekkert vafaatriði, þær eru til verulegra bóta og lýsa miklu meiri skilningi á málinu en áður hefur verið. En engu að síður, grunnhugmyndin er aftur á móti ekki í takt við það sem ég tel að almenningur í landinu vilji. Þess vegna spyr ég: Er hv. þm. Tómas Ingi Olrich reiðubúinn að standa að því að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar?